„Isavia leggur til fjármagn til lögreglunnar meðal annars til uppsetningar á búnaði og aðstöðu en til þess að tryggja þjónustustig á Keflavíkurflugvelli hefur Isavia einnig lagt fjármagn til rekstrar lögreglu síðustu ár.“
Þetta segir í skriflegu svari Isavia við fyrirspurn mbl.is um stöðu löggæslu á Keflavíkurflugvelli. Eins og fram kom í frétt mbl.is fyrr í vikunni hefur tollvörðum á flugvellinum fækkað um tvo á sama tíma og farþegafjöldi hefur aukist um tvær milljónir auk þess sem fjölgun lögreglumanna hefur ekki haldist í hendur við fjölgun farþega á vellinum.
Frétt mbl.is: Fleiri farþegar - færri tollverðir
Ólafur Helgi Kjartansson lögreglustjóri á Suðuresjum telur nauðsynlegt að bæta þar úr. Segir hann mikilvægt að ríkið leggi til aukið fjármagn til löggæslu á flugvellinum.
„Það er fullkomlega ljóst að til þess að lögreglan geti staðið undir sínu hlutverki á Keflavíkurflugvelli þarf að bæta við mannskap. Það skiptir verulega miklu máli að Keflavíkurflugvöllur geti sem alþjóðaflugvöllur staðist þær kröfur sem gerðar eru til þess að öryggi sé í fullkomnu lagi á vellinum.“
Hvað fjárstuðning Isavia við störf lögreglu varðar sagði Ólafur aðeins: „Isavia hefur verið okkur hliðhollt í rekstrinum.“
Í fyrrnefndu svari Isavia við fyrirspurn mbl.is segir að Isavia hafi sérstaklega bent á að fjárframlög til lögreglu á Suðurnesjum þyrftu að taka meira mið af því að eitt af verkefnunum er landamæraeftirlit á Keflavíkurflugvelli.
„Það að lögreglumönnum hafi ekki fjölgað í takt við farþegafjölgun hefur ekki áhrif á öryggi farþega eða starfsfólks. Um er að ræða vegabréfaeftirlit vegna flugs til áfangastaða utan Schengen svæðisins, aðallega Bretlands og Norður-Ameríku,“ segir í svari Isavia. „Mönnun þarf að vera nægileg til þess að tryggja gott flæði um landamærin og að það myndist ekki langar raðir í vegabréfaeftirliti. Nú er mönnun góð og nægileg til þess að gott flæði sé í gegnum landamæraeftirlit, þrátt fyrir að fjölgun hafi ekki verið jafnhröð og fjölgun farþega.“
Í svarinu er tekið fram að samstarf við lögreglu hafi verið mjög gott og að hún hafi skipulagt starf sitt mjög vel til þess að tryggja hátt þjónustustig við farþega. Þá er jafnframt tekið fram að auk fyrrnefndra fjárframlaga til lögreglu sé Isavia að fjárfesta í tækjabúnaði til að auka sjálfvirkni og verið sé að vinna í að koma upp sjálfvirkum vegabréfahliðum sem auka munu afköst við landamæraeftirlit.
„Öryggisgæsla á flugvellinum, flugvernd og vopnaleit er unnin af starfsfólki Isavia. Fjölgun starfsfólks sem sinna þeim störfum hefur verið í takt við farþegaaukningu.“