Borgarstjórn Reykjavíkur mun í næstu viku leggja fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun 2016 og næstu fimm ára. Borgarstjóri segir að í ljósi versnandi afkomu á þessu ári, þar sem tekjur hættu að duga fyrir útgjöldum, hafi borgarstjórn sett sér markmið um sjálfbæran rekstur.
Þetta kemur fram í vikulegu fréttabréfi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur.
„Frá árinu 2015 tók að gæta versnandi afkomu í kjölfar launahækkana og breytinga á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga. Með öðrum orðum hættu tekjur að duga fyrir útgjöldum, líkt og hjá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Að auki hallar verulega á sveitarfélögin í samskiptum við ríkið,“ segir Dagur.
„Til að bregðast við þessu höfum við sett okkur skammtíma- og langtímamarkmið um sjálfbæran rekstur. Ég vona að samstaða náist um þær aðgerðir sem við þurfum að fara í líkt og náðist um fyrstu skref á dögunum. Sterk og sjálfbær fjárhagsstaða er góður grunnur til að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem höfuðborgin stendur frammi fyrir á næstu árum,“ segir borgarstjórinn ennfremur.
Næsti fundur borgarstjórnar verður nk. þriðjudag.
Í hálfsársuppgjöri Reykjavíkurborgar kom fram að afkoma A-hluta borgarsjóðs, þess hluta sem fjármagnaður er með skattfé, hefði á fyrri helmingi ársins verið neikvæð um 3 milljarða kr. Gert var ráð fyrir tapi upp á 1,2 milljarða í áætlunum.
Borgarsamstæðan, A- og B-hluti, skilaði alls 303 milljón kr. hagnaði, en gert var ráð fyrir 2,14 milljarða króna hagnaði. Alls var því rekstrarniðurstaðan 1,84 milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir.
Ástæðurnar eru raktar til minni hagnaðar Orkuveitu Reykjavíkur vegna lækkandi álverðs og hins vegar til lakari afkomu A-hluta heldur en áætlun gerði ráð fyrir. Þar ræður hækkun launakostnaðar og minni sala á byggingarrétti mestu. Vert er að taka fram að Orkuveita Reykjavíkur hefur staðist Planið sem sett var upp og gott betur.
„Niðurstaða sex mánaða uppgjörsins kemur ekki á óvart og undirstrikar að það er áskorun að eiga fyrir nýgerðum kjarasamningum og mikilvægi þess að árangur náist í endurmati á málaflokki fatlaðs fólks og daggjöldum hjá hjúkrunarheimilum, en um milljarð vantar upp á að ríkið láti þá fjármuni fylgja sem þarf vegna þessa. Mikil uppbygging framundan léttir þó undir og við munum taka skipulega og fast á fjármálunum, líkt og undanfarin ár,“ var haft eftir borgarstjóra í tilkynningu, sem var send út í tengslum við uppgjörið í lok ágúst.