Sjálfbærni komi rekstri á réttan kjöl

Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur.
Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur. mbl.is/Styrmir Kári

Borgarstjórn Reykjavíkur mun í næstu viku leggja fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun 2016 og næstu fimm ára. Borgarstjóri segir að í ljósi versnandi afkomu á þessu ári, þar sem tekjur hættu að duga fyrir útgjöldum, hafi borgarstjórn sett sér markmið um sjálfbæran rekstur.

Þetta kemur fram í vikulegu fréttabréfi Dags B. Eggertssonar, borgarstjóra Reykjavíkur.

„Frá árinu 2015 tók að gæta versnandi afkomu í kjölfar launahækkana og breytinga á gjaldfærslu lífeyrisskuldbindinga. Með öðrum orðum hættu tekjur að duga fyrir útgjöldum, líkt og hjá öllum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu. Að auki hallar verulega á sveitarfélögin í samskiptum við ríkið,“ segir Dagur.

„Til að bregðast við þessu höfum við sett okkur skammtíma- og langtímamarkmið um sjálfbæran rekstur. Ég vona að samstaða náist um þær aðgerðir sem við þurfum að fara í líkt og náðist um fyrstu skref á dögunum. Sterk og sjálfbær fjárhagsstaða er góður grunnur til að nýta þau fjölmörgu sóknarfæri sem höfuðborgin stendur frammi fyrir á næstu árum,“ segir borgarstjórinn ennfremur.

Næsti fundur borgarstjórnar verður nk. þriðjudag.

Í hálfsársuppgjöri Reykjavíkurborgar kom fram að afkoma A-hluta borgarsjóðs, þess hluta sem fjármagnaður er með skattfé, hefði á fyrri helmingi ársins verið neikvæð um 3 milljarða kr. Gert var ráð fyrir tapi upp á 1,2 milljarða í áætlunum.

Borgarsamstæðan, A- og B-hluti, skilaði alls 303 milljón kr. hagnaði, en gert var ráð fyrir 2,14 milljarða króna hagnaði. Alls var því rekstrarniðurstaðan 1,84 milljörðum lakari en áætlanir gerðu ráð fyrir.

Ástæðurn­ar eru rakt­ar til minni hagnaðar Orku­veitu Reykja­vík­ur vegna lækk­andi ál­verðs og hins veg­ar til lak­ari af­komu A-hluta held­ur en áætl­un gerði ráð fyr­ir. Þar ræður hækk­un launa­kostnaðar og minni sala á bygg­ing­ar­rétti mestu. Vert er að taka fram að Orku­veita Reykja­vík­ur hef­ur staðist Planið sem sett var upp og gott bet­ur.

„Niðurstaða sex mánaða upp­gjörs­ins kem­ur ekki á óvart og und­ir­strik­ar að það er áskor­un að eiga fyr­ir ný­gerðum kjara­samn­ing­um og mik­il­vægi þess að ár­ang­ur ná­ist í end­ur­mati á mála­flokki fatlaðs fólks og dag­gjöld­um hjá hjúkr­un­ar­heim­il­um, en um millj­arð vant­ar upp á að ríkið láti þá fjár­muni fylgja sem þarf vegna þessa. Mik­il upp­bygg­ing framund­an létt­ir þó und­ir og við mun­um taka skipu­lega og fast á fjár­mál­un­um, líkt og und­an­far­in ár,“ var haft eft­ir borgarstjóra í tilkynningu, sem var send út í tengslum við uppgjörið í lok ágúst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert