Skuldir íslenskra heimila, sem hlutfall af ráðstöfunartekjum, eru lægri en í Noregi, Danmörku og Hollandi. Íslensk heimili eru komin nálægt þeirri stöðu sem sænsk heimili búa við í þessum efnum.
Hin hagfellda staða vekur athygli, meðal annars vegna þess að íbúðareign er almennari hér en gengur og gerist í nágrannalöndunum.
Í nýrri skýrslu Íslandsbanka um húsnæðismarkaðinn kemur fram að skuldir heimilanna hafi um mitt árið verið komnar niður í sem svarar 88% af landsframleiðslu og höfðu því lækkað um 12 prósentustig frá sama tíma í fyrra. Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag segir forstöðumaður greiningardeildar Íslandsbanka skuldastöðu heimilanna komna í gott horf og gefa tilefni til að ætla að þau hafi meira svigrúm til fjárfestinga og meiri neyslu en verið hefur.