Þetta var orðin tóm vitleysa

Arnaldur Indriðason rithöfundur.
Arnaldur Indriðason rithöfundur. Árni Sæberg

„Þetta var satt best að segja orðin tóm vitleysa, ég var farinn að vera fjóra til fimm mánuði á ári í útlöndum til að kynna bækur mínar. Þetta var farið að bitna á skrifunum. Þess vegna ákvað ég að draga verulega úr þessu, geri eins lítið og ég mögulega kemst upp með. Hef til dæmis bara farið þrisvar utan á þessu ári. Auðvitað skil ég þessa þörf en vil samt sem áður miklu frekar vera heima að sinna skáldskapnum. Annars yrðu engar bækur til.“

Þetta segir Arnaldur Indriðason rithöfundur í viðtali við Sunnudagsblað Morgunblaðsins um helgina. Nýjasta skáldsaga hans, Þýska húsið, kemur út á sunnudaginn og er sögusviðið Reykjavík á tímum hernámsins. 

Sama á við um kynningarstarf hér heima, Arnaldur heldur ekki útgáfuhóf eins og margir höfundar og mætir sárasjaldan í viðtöl. Þetta viðtal er til dæmis það eina sem hann ætlar að veita vegna útgáfu Þýska hússins. „Það er alveg rétt, ég er ekki mikið í viðtölum. Ætli ég hafi ekki farið síðast í viðtal þegar Einvígið kom út fyrir fjórum árum. Margir höfundar gera þetta frábærlega, það er að koma fram og tala um sig og sínar bækur. Ég er bara ekki einn af þeim. Ég er líka á því að lesendur eigi sjálfir að uppgötva bækur og þurfi ekki leiðbeiningar frá höfundi. Í öðru lagi er ég feiminn maður að upplagi og tala yfirleitt ekki um sjálfan mig, nema við mína nánustu.“

Arnaldur ræðir einnig um vinnubrögð sín í viðtalinu. „Þegar plottið og sagan liggja fyrir sný ég mér að málfarinu, samtölunum og persónulýsingum. Nostra við þetta fram á sumar. Mér finnst mjög mikilvægt að skrifa vandað mál, vegna þess að ég er alltaf að reyna að búa til sæmilegan skáldskap. Stíllinn þarf af vera hreinn og klár, ekki of mikið flúr og lýsingarorðin ekki of mörg, enda eru glæpasögur í mínum huga ekki síst vettvangur fyrir skáldlegt mál. Ég legg metnað í að hafa bækur mínar á bókmenntalegum nótum og vil frekar ná til lesandans gegnum textann og sálarkröm persónanna en spennuna, þó að hún sé vonandi þarna líka. Ég hef stundum sagt að morðin séu aukaatriði í mínum sögum.“

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert