Brotist var inn til þeirra Ásu S. Þorsteinsdóttur og Guðna G Kristjánssonar í Fossvogi í nótt og greipar látnar sópa. Meðal þess sem stolið var var fartölva Ásu með lokaritgerð hennar í háskólanum og bíll Ásu.
„Þetta hefur verið milli 1 og 4 í nótt og verið að í einhvern tíma. Brotist inn gegnum glugga og allt tekið, skartgripir og föt og upp í heimabíó og sjónvarp. Við vorum nýbúin að skíra dóttur okkar og þeir tóku allar skírnargjafirnar. Svo hafa þeir tekið bílinn,“ sagði Guðni.
Ása uppgötvaði innbrotið þegar hún kom heim í morgunsárið. „Ég reyndi að opna en gat það ekki, þá var búið að læsa innan frá. Svo tekst mér að opna ég og sé strax að það er allt farið. Það var allt í rúst og allt tekið sem var einhvers virði.“ Hún býst ekki við að geta sofið ein í íbúðinni næstu daga, eftir innbrotið. „Ég er bara hrædd við að vera þarna og efast um að ég geti gist þarna næstu nætur.“
Bíllinn sem lýst er eftir er brúnn Hyundai i30 með númerið YRP-22. Þau hafa auglýst eftir upplýsingum á Facebook.