Skilur vel að fólki svíði

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítala.

Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segist skilja það vel að fólki svíði sem ekki fær greitt að fullu fyrir vinnu sem þeir unnu á meðan verkfalli stóð. Hann styður eindregið óskir starfsmanna um leiðréttingu á því. Þetta er meðal þess sem kemur fram í forstjórapistli Páls í gær. Þar kemur einnig fram að þúsundir bíða á biðlistum eftir aðgerðum að loknu hörmunarári fyrir sjúklinga og starfsfólk Landspítala.

Getum ekki lagt okkur fram

„Þær góðu fréttir bárust í vikunni að samningar hefðu tekist á milli SFR og Sjúkraliðafélags Íslands annars vegar og samninganefndar ríkisins hins vegar. Það er sannarlega léttir að sátt hafi náðst í þeirri erfiðu kjaradeilu, nærri því upp á dag ári eftir að Læknafélag Íslands og Skurðlæknafélag Íslands hófu verkfallsaðgerðir sínar en það var 27. október 2014. 

Þó að verkföllum og uppsögnum sé þá vonandi lokið á þessu sannkallaða hörmungarári fyrir sjúklinga og starfsfólk Landspítala þá fer því fjarri að öll kurl séu komin til grafar. Samningur ríkisins og Lækna- og Skurðlæknafélags Íslands lagði stofnunum ríkar skyldur á herðar að útfæra breytingar á vaktakerfi lækna. Það var tímabært en hraðinn við framkvæmdina réðst að miklu leyti af því fjármagni sem sett er í samningana. Landspítali er á milli steins og sleggju; ekki aðili að málinu frekar en aðrar stofnanir en þarf að útfæra lausnina með hliðsjón af samningunum, því fjármagni sem til þeirra er varið - og eins og ætíð með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. 

Annað dæmi um erfitt mál er sú staðreynd að einstaklingar í verkfalli fengu í mörgum tilfellum ekki greitt að fullu fyrir þá vinnu sem þeir sannarlega unnu. Þetta á einkum við um vinnu sem unnin var utan verkfallstíma fólks sem var í hlutaverkfalli. Mér finnst skiljanlegt að fólki svíði slíkt og styð eindregið óskir starfmanna um leiðréttingu á því. Hins vegar hefur félagsdómur úrskurðað í slíku máli sem Ljósmæðrafélags Íslands höfðaði gegn ríkinu. Landspítali hefur ekki heimild til að leysa málin upp á eigin spýtur og ganga gegn þeim dómi en mun beita sér fyrir því að ásættanleg lausn finnist. Á meðan þá verð ég að biðla til fólks að virða dómstóla og ganga í verkin af þeirri umhyggju sem einkennir starfsemi spítalans.  

Að afstöðnum verkföllum eru ærin verkefni. Þannig bíða þúsundir aðgerða á biðlistum, það tekur tíma að ná sátt í starfsmannahópnum á ný og ná fullum afköstum. Sem aldrei fyrr þurfum við að standa saman og berjast fyrir öryggi sjúklinga og gæðum þjónustunnar,“ skrifar Páll.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert