Útsöluverð á ýsu í verslunum hefur hækkað síðasta ár þrátt fyrir að markaðsverð hafi fallið talsvert síðan á síðasta ári. Landssamband smábátaeigenda vakti athygli á þessu í vikunni á heimasíðu sinni.
Örn Pálsson, framkvæmdastjóri sambandsins, segir eðlilegt að allir markaðsaðilar fái eitthvað fyrir sinn snúð en gæta verði sanngirni. „Á sama tíma og markaðsverðið fellur úr rúmum 400 kr. í 260 kr. þá hækkar verðið hjá fisksölum og við erum ekki ánægðir með það.“
Verðfallið rekur Örn helst til þess þegar aflaheimildir voru skornar niður um 20% árið 2014 í kjölfar skýrslu Hafrannsóknarstofnunar fyrir það fiskveiðiár og sögð von á áframhaldandi lélegum árgöngum í stofninum. „Svo þegar skýrslan fyrir 2015 kom út í júní þá var algjör kúvending og ákveðið að auka kvótann um 20%. Þegar þessi aukning kemur er búið að fylla upp í þetta skarð á markaðinum með fisk frá öðrum stöðum. Þess vegna hefur ýsan lækkað á mörkuðum í ágúst og september.“
Örn segir það hagsmunamál allra á markaðnum, jafnt sjómanna sem kaupmanna, að stuðla að neyslu fisks. Smábátasjómenn veiði auk þess stóran hluta þeirrar ýsu sem fari á innanlandsmarkað.
Í könnunum ASÍ í júní 2014 og maí 2015 kemur fram að meðalverð á roð- og beinlausum ýsuflökum í þeim verslunum sem kannaðar voru hækkaði lítillega, úr 1861 kr/kg í 1865kr/kg, en markaðsverð mun hafa verið á fyrrgreindu bili á þeim tíma: Um 400 kr/kg 2014 og 260 kr/kg 2015, en nýting á óslægðri ýsu er sögð á bilinu 33-40% í roð- og beinlaus flök.
Í verðlagstölum Hagstofunnar má sjá nokkurt verðfall á ýsuflökum í haust eftir talsverða hækkun milli maímánuða 2014-15.
Kristófer Ásmundsson, fisksali í Gallerý Fisk í Ártúnsholti segir það ekki gefa rétta mynd af ástandinu að horfa á meðalverð afla og það verð sem fisksalar bjóði í smásölu. „Við kaupum alltaf besta hráefni sem er í boði hverju sinni og verð á því fylgir ekki endilega meðalverði.“
Auk þess segir Kristófer fisksala hafa dregið úr álagningu áður þegar fiskverð fór hækkandi og álagningin nú sé nær því sem teljast megi eðlileg.