500 manns munu þreyta inntökupróf fyrir verðandi flugliða WOW air í Háskólabíói í dag kl.10. Alls bárust um 1500 umsóknir um starf flugliða WOW air.
Hvað heitir höfuðborg Ástralíu? Hvað heitir framkvæmdastjóri Evrópusambandsins? Hvað er Ísland stórt að flatarmáli? Þetta er á meðal prófspurninga sem lagðar voru fyrir umsækjendur um starf flugliða í prófinu í fyrra. Það má búast við svipuðum spurningum í prófinu í dag, segir í fréttatilkynningu frá WOW air.
WOW air auglýsti eftir flugliðum í september síðastliðnum og bárust um 1.500 umsóknir. Það er mikil aukning frá því WOW air auglýsti síðast eftir flugliðum en áætlanir félagsins gera ráð fyrir að yfir 100 manns verða ráðnir í störf flugliða. Næsta vor munu nýir áfangastaðir bætast við leiðarkerfi WOW air bæði í Norður-Ameríku og Evrópu og því er þörf á að ráða fleiri flugliða til starfa.
Í dag, sunnudaginn munu 500 þreyta próf í Háskólabíói og í kjölfarið munu viðtöl hefjast á næstu vikum. Að umsóknarferlinu loknu munu tilvonandi flugliðar WOW air sitja öryggis- og þjónustunámskeið. Þjálfun nýliða sem er bæði verkleg og bókleg tekur um tvo mánuði.
Um 80 karlmenn munu þreyta prófið á sunnudaginn sem er umtalsverð aukning frá því í fyrra.
Í hópi umsækjenda eru meðal annars lögfræðingar, hjúkrunarfræðingar, leikarar, kennarar, dansarar, verkfræðingar, læknanemar og lögregluþjónar svo nokkur dæmi séu tekin. Gífurlegur fjöldi hæfra einstaklinga sótti um en því miður komast færri að en vilja.
„Við ráðningu flugliða er leitast eftir framúrskarandi þjónustulund, jákvæðu viðmóti, lífsgleði og hæfni í mannlegum samskiptum. Leitað er að áreiðanlegum einstaklingum sem geta unnið vel undir álagi. Það geta komið upp ýmsar aðstæður um borð í háloftunum sem flugliðar verða að vera í stakk búnir að leysa. Við leggjum einnig áherslu á að flugliðar búi yfir góðri tungumálakunnáttu og hafi lokið stúdentsprófi,“ segir Ragna Emilsdóttir, yfirflugfreyja WOW air, í fréttatilkynningu.