Embætti forseta er valdamikið

Bessastaðir.
Bessastaðir. mbl.is/Eggert

Áttatíu prósent þeirra sem þátt tóku í könnun um hlutverk forseta Íslands telja embættið áhrifamikið. Var könnuninni hleypt af stokkunum með bréfi til 250 einstaklinga og hún síðan kynnt á Facebook-síðu þar sem fólki var boðið að taka þátt, en alls svöruðu um 700 manns spurningum um forseta.

Stefán Jón Hafstein stóð að baki könnuninni og voru niðurstöður hennar kynntar í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni.

Fyrsta spurning könnunarinnar var eftirfarandi: „Er forseti Íslands áhrifavaldur í íslensku samfélagi eins og embættið hefur þróast?“ Samtals telja 80% embættið áhrifamikið, þ.e. 27% segja að forseti sé „mjög mikill áhrifavaldur“ og 53% segja að forseti sé „frekar mikill áhrifavaldur.“ „Hvorki né“ sögðu um 10% og heldur færri samtals að embættið
væri „frekar“ eða „mjög áhrifalítið.“

Forsetinn er sameiningartákn

Í spurningu tvö var leitast eftir því að svara hvers konar áhrifavald fólk telji að forsetinn eigi að hafa. Fjórir valkostir voru í boði en 48% segja að forseti sé „áhrifavaldur í þágu málefna sem hann kýs að setja á oddinn í ræðu og riti en blandar sér ekki í átakamál líðandi stundar“.

Alls segja 34% að forseti sé „ fyrst og fremst sameiningartákn og á að forðast að blanda sér í átakamál í samfélaginu, hann er eins „ópólitískur“ og unnt er.“ Þeir sem segja forseta sé „gerandi í stjórnmálum og beitir áhrifum og valdi í þágu málefna sem hann kynnir fyrir kosningar þótt hann sé óháður og sjálfstæður frá stjórnmálaflokkum og leitast því síður við að vera sameiningartákn“ eru 12%. Þá voru 5% sem segja að „forseti býður sig fram fyrir ákveðna máladagskrá sem hann hyggst beita sér fyrir og leiða til lykta - og gera embættið því enn pólitískara en nú er í krafti umboðs frá kjósendum.”

Synjunarvald er mikilvægt

Í þriðju spurningu var spurt: „Samkvæmt stjórnarskrá getur forseti synjað lögum staðfestingar telji hann þess þörf og fara þau þá í þjóðaratkvæðagreiðslu. Telur þú mikilvægt að forseti hafi þennan rétt eins og nú er málum háttað?“

Samtals segja 70% synjunarvald forseta mikilvægt, þ.e. 49% telja „mjög mikilvægt“ að
forsetinn hafi þennan rétt og 21% „fremur mikilvægt.“ Rúmlega 20% eru hins vegar andvíg þessu ákvæði.

Nota skal synjunarvald varlega

Í fjórðu spurningu var spurt: „Ljóst er að mismunandi túlkanir eru á synjunarvaldinu sem einnig er kallað málskotsréttur. Sumir halda fram því viðhorfi að þetta vald sé „öryggisventill“ sem eigi einungis að nota við óvenjulegar aðstæður, en til eru þeir sem vilja virkja þennan rétt enn frekar en gert hefur verið og nota sem áhrifavald á stjórnmálin. Hver er þín afstaða (að því gefnu að þessi réttur sé hjá forseta áfram)?“

Alls vilja 80% að synjunarvald forseta sé notað „varlega“ eða aðeins í öryggisskyni, en 64% telja að „synjunarvaldið eigi bara að nota sem öryggisventil og eigi ekki að móta framvindu í stjórnmálum almennt“ og 18% eru á því að „nýta megi þetta ákvæði varlega
til áhrifa.“

Óskýrar leikreglur

Í fimmtu spurningu var spurt: „Aðeins núverandi forseti hefur beitt synjunarvaldinu (málskotsrétti), og það oftar en einu sinni, en fleiri forsetar hafa fengið áskoranir um slíkt
án þess að hafa orðið við. Er að þínu mati skýrt hvenær og hvers vegna forseti beitir þessu valdi?“

Alls telja 67% leikreglur óskýrar, þ.e. „frekar óskýrt“ segja 30% og „mjög óskýrt“ segja 37% um hvenær og hvers vegna forseti beitir synjunarvaldinu.

Reynsla eða persónan?

Sjötta spurning var eftirfarandi: „Engin starfslýsing er til fyrir forseta. Hvort vegur þyngra í huga þínum þegar kemur að vali forseta, starfstengd reynsla og þekking eða persónulegir eiginleikar sem þú telur að komi sér vel fyrir þjóðhöfðingja?“

Alls telja 50% þetta tvennt vega nokkuð jafnt. Restin hallar sér frekar að persónulegum eiginleikum.

Þá sögðu 95% „nei“ þegar spurt var hvort viðkomandi væri sammála því að þegar kemur að vali á næsta forseta skiptir kynferði meira máli en starfstengd reynsla og þekking eða persónulegir eiginleikar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert