„Óðs manns æði“ sé allt á sama stað

Landspítalinn.
Landspítalinn. mbl.is/Ómar

„Ég hef öryggisáhyggjur af því að við byggjum allt á einum stað,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Vísar hún í máli sínu til fyrirhugaðrar byggingar nýs Landspítala við Hringbraut í Reykjavík.

Byggir Hanna Birna þessa afstöðu sína á samtölum sem hún hefur átt við borgaryfirvöld annars staðar, en að sögn þeirra er það „óðs manns æði“ að hafa alla helstu sjúkrahúsþjónustu á einum stað. Ástæðan fyrir því er sú, að sögn Hönnu Birnu, að ef miðborg Reykjavíkur lokast af með einhverjum hætti er mikill öryggisþáttur fólginn í því að hafa einnig sjúkrahús staðsett annars staðar í borginni. 

Auk Hönnu Birnu var gestur þáttarins Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. „Það hefur verið stöðnun í þessu nú að verða 15 ár. Það er einfaldlega orðin knýjandi þörf fyrir það að hefja framkvæmdir og taka á þessu,“ sagði Helgi og bætti því við að margsinnis væri búið að fara yfir helstu röksemdir með og á móti í málinu.

„Við þurfum betri aðstöðu fyrir þennan spítala og við þurfum að hagræða í rekstrinum. Það hefur margsinnis verið sýnt fram á að þessar framkvæmdir munu hagræða í rekstrinum og það gefur vonandi tækifæri til þess að veita betri þjónustu en við erum að gera í dag,“ sagði Helgi, en nýverið birtist stuðningsyfirlýsing um 400 einstaklinga í Morgunblaðinu sem þar lýstu yfir stuðningi sínum við að Landspítalinn yrði um kyrrt og uppbygging yrði hafin við hann.

Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Hanna Birna Kristjánsdóttir, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingar. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert