Alvarlegt umferðarslys varð á þjóðveginum fyrir botni Eskifjarðar laust fyrir klukkan átta í morgun. Þar rákust saman tvær bifreiðar, sem voru að koma úr gagnstæðri átt. Í annarri bifreiðinni voru þrír einstaklingar en tveir í hinni.
Slökkvilið Fjarðabyggðar þurfti að beita klippum til að ná fólkinu út úr annarri bifreiðinni. Þrír voru fluttir með sjúkrabifreiðum til aðhlynningar á sjúkrahúsi í Neskaupstað en tveir voru fluttir til skoðunar á Heilsugæslustöðina á Eskifirði.
Ísing var á vettvangi og því mikil hálka, segir á vef lögreglunnar.
Ekki er að svo stöddu hægt að greina frekar frá málinu en rannsóknardeild lögreglunnar á Austurlandi fer með frekari rannsókn málsins.
Frétt mbl.is: Mikil ísing í beygjunni