Hugsanlegt er að ferja eigi eftir að sigla að nýju á milli Reykjavíkur og Akraness í framtíðinni líkt og var raunin þegar Akraborgin hélt uppi slíkum samgöngum á sínum tíma. Hugmyndir í þá veru hafa verið í skoðun undanfarið ár og hafa Faxaflóahafnir meðal annars unnið skýrslu um mögleikann á slíkum siglingum.
„Mér þóttu niðurstöðurnar mjög áhugaverðar en samkvæmt þeim myndu slíkar samgöngur krefjast lítillar meðgjafar til þess að ganga upp,“ segir Kristín Soffía Jónsdóttir, stjórnarformaður Faxaflóahafna. Stofnaður var starfshópur fulltrúa frá Reykjavík og Akranesi og hefur sú samvinna verið mjög góð að sögn hennar.
Komi til slíkra siglinga verður þó ekki um að ræða bílferju líkt og í tilfelli Akraborgarinnar heldur líklega bát sem tekur um 65 manns. Horft er til þess að þrír hópar væru líklegir til að nýta sér slíkar siglingar. Þeir sem ættu erindi til annars hvors staðanna vegna náms eða vinnu, innlendir ferðamenn og erlendir ferðamenn.
Farið var í ferð á milli Reykjavíkur og Akraness um helgina á hvalaskoðunarbátnum Rósinni sem er sama stærð af báti og mælt er með í skýrslunni. Með í för voru meðal annarra Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri Reykjavíkur, og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri Akraness. Kristín segir ferðina hafa verið frábæra og tekið 28 mínútur.
Starfshópurinn mun halda áfram vinnu sinni að sögn Kristínar sem mun miða að því að útfæra nánar með hvaða hætti yrði staðið að málum ef af yrði. Verið er að skoða hvort sett verði af stað tilraunaverkefni í þessum efnum en væntanlega yrði samið við rekstraraðila um að taka að sér verkefnið á grundvelli hagstæðasta boðs.