Hefði Ísland verið í Evrópusambandinu þegar viðskiptabankarnir þrír féllu haustið 2008 hefði landið getað lent í greiðsluþroti. Þetta er haft eftir Sigmundi Davíð Gunnlaugssyni forsætisráðherra á fréttavefnum Politico.eu í dag. Segist hann ansi hræddur um að sá árangur sem náðst hefði við að koma efnahagslífi landsins aftur í lag hefði ekki verið mögulegur innan sambandsins.
Haft er eftir Sigmundi að ef umsókn síðustu ríkisstjórnar um inngöngu í Evrópusambandið hefði náð fram að ganga hefðu Íslendingar líklega hlotið sömu örlög og Grikkir, sem urðu fyrir efnahagshruni sem ekki sér fyrir endann á, eða Írar sem horfðu upp á gríðarlega hækkun opinberra skulda í kjölfar þess að stjórnvöld ábyrgðust skuldbindingar írskra banka.
Sigmundur benti á að ef Ísland hefði þurft að taka á sig skuldir bankakerfisins íslenska innan Evrópusambandsins með sama hætti og þær hefðu verið í evrum líkt og í tilfelli Grikklands og Írlands hefði það haft hörmulegar afleiðingar fyrir íslenskt efnahagslíf. Þess í stað hefði Ísland náð miklum árangri í kjölfar efnahagserfiðleikanna sem gengu yfir landið.
Haft er eftir Sigmundi að miklu máli hafi skipt fyrir Ísland og efnahagsbatann hér á landi að hafa sjálfstæðan gjaldmiðil, sjálfstætt lagasetningarvald sem veitt hafi stjórnvöldum svigrúm til aðgerða og stjórn eigin náttúruauðlinda sem ekki hefði verið raunin innan Evrópusambandsins. Umsóknin um inngöngu í sambandið hafi verið tekin í fjótfærni og að illa hugsuðu máli.
„Helstu rökin fyrir umsókninni 2009 voru þau að við yrðum að ganga í Evrópusambandið af efnahagslegum ástæðum. Þetta var alltaf nálgast sem efnahagsleg spurning. Nú telur fólk að það hafi fengið svar við þeirri spurningu. Íslandi hefur gengið miklu betur efnahagslega en sambandinu. Miklar framfarir hafa orðið undanfarin tvö ár á meðan Evrópusambandið stendur frammi fyrir áframhaldandi erfiðleikum.“