Tólf starfsmönnum prentsmiðjunnar Odda hefur verið sagt upp í hagræðingarskyni. Baldur Þorgeirsson, framkvæmdastjóri Odda, segir aðgerðirnar hafa verið nauðsynlegar þar sem samdráttur hafi orðið á verkefnum miðað við áætlanir. Samkeppni við erlenda aðila hafi gengið illa vegna sterks gengis krónunnar.
Uppsagnirnar náðu til allra deilda fyrirtækisins og misstu lagerstarfsmenn, prentarar og sölumenn vinnuna svo dæmi séu tekin. Baldur segir að fyrirtækið keppi mikið við erlenda aðila, bæði í umbúðum og prentun bóka. Sú samkeppni hafi ekki gengið vel á þessu ári þegar gengið sé svo sterkt.
„Þetta hefur verið svona á þessu áru meira eða minna. Við héldum að haustið yrði betra sem er síðan ekki,“ segir hann.
Baldur á ekki von á að gripið verði til frekari aðgerða af þessu tagi á næstu mánuðum. Það fari þó eftir því hvernig gangi að fá verkefni.
„En ef það eru engin verkefni verðum við auðvitað að gera eitthvað,“ segir hann.