Umferð um 16 lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringveginum jókst um 12,5 prósent í október og hafa aldrei fleiri mælst á ferð um Hringveginn í október. Nú stefnir í að umferðin árið 2015 verði 5,5 prósentum meiri en árið 2014 og með því verður slegið met í umferðinni. Þetta kemur fram á vef Vegagerðarinnar.
Í nýliðnum mánuði hafa aldrei mælst fleiri ökutæki fara um lykilteljara Vegagerðarinnar á Hringvegi í október frá því að mælingar hófust. Umferðin jókst um 12,5% í nýliðnum október sé hann borinn saman við sama mánuð árið 2014. Gríðarleg aukning varð í umferð á öllum landssvæðum, en mest jókst umferðin um Austurland eða um tæp 36%, sem er einsdæmi. Minnst jókst umferðin um höfuðborgarsvæðið en jókst þó um rúmlega 8%, sem er langtum meiri aukning en búast má við í meðalári.
Umferð í 16 lykilsniðum á Hringveginum aukist um 5,4%, frá áramótum borið saman við sama tímabil á síðasta ári. Þetta er nákvæmlega sama hlutfall og umferðin hafði aukist um á síðasta ári. Umferðin hefur aukist lang mest á Austurlandi eða um tæp 14% en minnst hefur aukningin orðið á og við höfuðborgarsvæðið eða um 4,2%.
Umferð hefur aukist alla vikudaga en hlutfallslega mest á þriðjudögum eða um 7,5%. Minnst hefur umferðin aukist á sunnudögum eða um 3,2%.