Mest velsæld ríkir í Noregi ef marka má árlega úttekt Legatum Institute, í öðru sæti kemur Sviss og þar á eftir Danmörk. Nýja Sjáland er í fjórða sæti, Svíþjóð er í fimmta sæti og Kanada í því sjötta. Næst koma Ástralía, Holland, Finnland og Írland.
Legatum ber í úttekt sinni lönd saman út frá ákveðnum þáttum sem saman skapa velsæld á meðal landsmanna. Kannað er meðal annars hvernig löndin standi sig efnahagslega og í menntamálum, persónufrelsi, heilbrigðismálum, öryggismálum og frumkvöðlastarfsemi. Mælingin nær til 142 landa í heiminum eða 96% af mannfjölda heimsins og 99% af vergri landsframleiðslu heimsins.
Ísland er í 12. sæti í ár og færist niður um eitt sæti frá því fyrir ári. Fleiri ríki ofarlega á listanum færast til um eitt eða tvö sæti. Nýja Sjáland var í þriðja sæti á síðasta ári en færist niður í fjórða sætið, Kanada færist úr fimmta sæti niður í það sjötta, Finnland fer úr áttunda sæti í það níunda og Bandaríkin úr tíunda sæti í 11. sæti svo dæmi séu tekin.
Þrjátíu efstu lönd á lista Legatum Institute og breytingar á sætaskipan miðað við síðasta ár:
1. Noregur
2. Sviss
3. Danmörk (+1)
4. Nýja Sjáland (-1)
5. Svíþjóð (+1)
6. Kanada (-1)
7. Ástralía
8. Holland (+1)
9. Finnland (-1)
10. Írland (+2)
11. Bandaríkin (-1)
12. Ísland (-1)
13. Lúxemburg (+3)
14. Þýskaland
15. Bretland (-2)
16. Austurríki (-1)
17. Singapúr (+1)
18. Belgía (-1)
19. Japan
20. Hong Kong
21. Taívan
22. Frakkland (-1)
23. Malta
24. Spánn (+2)
25. Slóvenía (-1)
26. Tékkland (+3)
27. Portúgal
28. Suður Kórea (-3)
29. Pólland (+2)
30. Sameinuðu arabísku furstadæmin (-2)