„Við höfum áhyggjur af því að börn og unglingar með sykursýki 1 fari að leyna því, eða vilji ekki ræða það, eða vilji ekki sýna það. Þetta verði nokkurskonar tabú,“ segir Ingrid Örk Kjartansdóttir sem er foreldri barns með sykursýki 1, sjúkdómurinn er oft settur undir sama hatt og týpa 2 sem er gjarnan tengdur vondu lífsmynstri.
Hún segist reglulega lenda í því að fólk haldi að hægt sé að vinna gegn sjúkdómnum með réttu mataræði eða náttúrulyfjum. Staðreyndin er sú að sykursýki 1 er ólæknanlegur og meðfæddur sjúkdómur sem ekki hefur fundist lækning á og stafar af því að brisið framleiðir ekki insúlín.
Bergsteinn Leifsson þriggja ára gamall sonur hennar greindist með sjúkdóminn þegar hann var að verða tveggja ára og þarf að fylgjast náið með blóðsykursmagni hjá honum.
Í nóvember stendur Dropinn sem er styrktarfélag fyrir börn með sykursýki fyrir árveknisátaki þar sem reynt verður að efla vitund fólks um mismuninn á þessum tveimur tegundum af sykursýki. Ingrid Örk segir að það sé sérstaklega mikilvægt að fjölmiðlar geri greinarmun á sjúkdómunum tveimur þegar um þá er fjallað.
#t1dropinn #týpa1
mbl.is heilsaði upp á Bergstein á dögunum og ræddi við foreldra hans um sjúkdóminn.
Fanney Kjartansdóttir er tvítug og með sykursýki 1. Hún skrifaði smá pistil um daginn þar sem hún fór yfir mismuninn á sjúkdómunum tveimur sem hún segist gera reglulega:
Hérna er í stuttu máli hvað er sykursýki 1 og hvað er sykursýki 2:
Sykursýki 1(insúlínháð sykursýki)
- Sykursýki af tegund 1 er sjúkdómur sem upp kemur vegna þess að framleiðsla insúlíns í brisi minnkar eða hættir algjörlega.
- Insúlín er hormón sem er nauðsynlegt til að kolvetnin, glúkósi, sem við fáum úr fæðunni komist inn í frumur líkamans og nýtast þar sem orka. Ef virkni og framleiðsla insúlíns er ónóg nýtast kolvetnin úr fæðunni ekki sem skyldi og blóðsykurinn hækkar.
- Einstaklingar með sykursýki 1 þurfa að sprauta sig með insúlíni eða nota insúlíndælur og fylgjast með blóðsykri með blóðsykursmæli.
- Þeir sem hafa sykursýki 1 geta með skynsemi lifað fullkomlega eðlilegu lífi og lært að stjórna meðferðinni algjörlega sjálfir frá degi til dags.
Orsök
- Ekki er vitað með vissu hvað orsakar sykursýki 1. Margt bendir til þess að ákveðnir erfðaþættir geri vissa einstaklinga útsettari fyrir áhrifum umhverfis og hrinda þar með sjúkdómnum af stað.
- En vitað er fyrir víst að enginn þróar sykursýki 1 vegna of mikillar neyslu sykurs.
Er hægt að losna við sykursýki 1?
- Sykursýki 1 er ólæknanlegur sjúkdómur.
Sykursýki 2 (insúlínóháð sykursýki)
-Sykursýki af tegund 2 er sjúkdómur sem upp kemur vegna ónógrar virkni og framleiðslu insúlíns í líkamanum. Líkaminn framleiðir ekki næginlega mikið af insúlíni eða hann hefur misst getu sína til að nýta það insúlín sem framleitt er.
-Rannsóknir hafa sýnt að þeir sem eru í sérstakri hættu að fá sykursýki 2 geta dregið verulega úr líkum á því með því að huga að mataræði og lífstíl.
Orsök
-Sykursýki 2 er í mörgum tilfellum áunnið heilsufarsvandamál sem stafar meðal annars af kyrrsetu, röngu mataræði og þar með talin óhófleg gosdrykkja.
-Sykursýki 2 kemur frekar fram hjá einstaklingum sem eiga ættingja með sykursýki 2, hafa fengið sykursýki á meðgöngu, eru of þungir, hafa of háann blóðþrýsting, þjást af æðakölkun og hafa of háa blóðfitu (kólestról og þríglýseríða).
Er hægt að losna við sykursýki 2?
- Sykursýki 2 er að öllu jöfnu hægt að halda í skefjum með réttu mataræði og sykursýkislyfjum í töfluformi.