Markmiðið að veikja RÚV

Málefni Ríkisútvarpsins voru á milli tannanna hjá þingmönnum á Alþingi …
Málefni Ríkisútvarpsins voru á milli tannanna hjá þingmönnum á Alþingi í dag. mbl.is/Ómar

Hollvinir Ríkisútvarpsins þurfa að vera á verði en markmið ríkisstjórnarinnar virðist vera að veikja stofnunina til þess að hún geti losað sig við hana. Þetta sagði Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður Vinstri grænna, á Alþingi í dag. Sagði hún menn mega skammast sín fyrir framgöngu sína gegn RÚV.

Benti Lilja Rafney á að landsfundur Sjálfstæðisflokksins hefði samþykkt á dögunum að selja Ríkisútvarpið og nýlega hafi komið út skýrsla um rekstur RÚV. Sagði hún að skýrsluhöfundar væru góðvinir menntamálaráðherra sem drægi úr trúverðugleika hennar. Ekki hafi verið eðlilegt að trúnaðarupplýsingum um rekstur RÚV hafi verið lekið í samkeppnismiðla.

Sakaði hún ríkisstjórnina um að hafa látið kné fylgja kviði gegn RÚV frá því að hún tók við. Hún hafi rifið upp stjórn RÚV og skipaði hana pólitískt á ný eftir að fyrri ríkisstjórn hafði gert breytingar á skipun hennar.

„Það virðist vera markmið að reyna að veikja þessa góðu stofnun sem hefur fylgt okkur frá 1930. Veikja hana svo að menn geti komið og sagt að þetta sé svo veik stofnun að það er bara best að losa okkur við hana og láta almenna markaðinn sjá um þetta,“ sagði þingmaðurinn.

Því þyrftu hollvinir RÚV að vera á verði. Stjórnendur stofnunarinnar hefðu kynnt metnaðarfulla framtíðarsýn undanfarið. Sýn RÚV hafi fengið góðar viðtökur almennings í landinu.

„Það er þess vegna óskiljanlegt að þessi stjórnvöld ætli að reyna að brjóta á bak aftur þessa góðu og miklu stofnun, RÚV, með þessum hætti. Ég segir bara að menn mega skammast sín,“ sagði Lilja Rafney.

Dagskrárgerð líði ekki fyrir mistök með efnahaginn

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, vakti einnig máls á fjárhagsvanda RÚV. Eyþór Arnalds, formaður nefndarinnar sem gerði skýrslu um fjármál stofnunarinnar, hafi staðfest að RÚV eyddi ekki óhóflega miklu fé í dagskrárefni. Það kunni hins vegar að vera að mistök hafi verið gerð við stofn efnahags opinbera hlutafélagsins þegar lífeyrisskuldbindingum var hlaðið á það.

„Það er mikilvægt að það sé ekki þessi eðlilega og heilbrigða dagskrárgerð sem ekki er verið að kosta óeðlilega miklu til að mati nefndarinnar sem að sé látin líða fyrir það,“ sagði Helgi.

Fjárveitingarvaldið yrði að axla ábyrgð á þeim ákvörðunum sem menntamálayfirvöld hefðu tekið og stjórn Ríkisútvarpsins til að tryggja að hægt væri að halda áfram hagkvæmri og eðlilegri dagskrárgerð í Ríkisútvarpinu fyrir alla landsmenn.

„Það er líka mikilvægt fyrir lýðræðið að fyrirheita menntamálaráðherra í því efni nái fram að ganga en að tilraunir formanns fjárlaganefndar til að kúga fjölmiðla til hlýðni með því að leggjast fyrir tillögur menntamálaráðherra verði ekki látnar haldast hér uppi af öðrum þingmönnum í salnum,“ sagði Helgi.

Spurning um hvernig skuli verja almannafé

Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, sagði að margir hafi átt erfitt með að finna gagnrýni á skýrsluna um Ríkisútvarpið. Gagnrýnin hafi helst falist í því að einn nefndarmannanna sé sellóleikari. Mikilvægast væri að ræða hlutverk stofnunarinnar, hvernig best væri að ná því og hvernig ætti að verja almannafé.

Setti þingmaðurinn framlög til Ríkisútvarpsins í samhengi við heilbrigðiskerfið og spurði hvort setja ætti fé í að vernda stofnunina eða til uppbyggingar heilbrigðiskerfisins.

Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG.
Lilja Rafney Magnúsdóttir, þingmaður VG. mbl.is/Ómar Óskarsson
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Eggert
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Vilhjálmur Árnason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Eggert Jóhannesson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert