Viðvarandi halli aðalsjóðs Reykjavíkurborgar bendir til þess að skatt- og þjónustutekjur standi ekki undir rekstri málaflokka borgarinnar til lengri tíma.
Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpi til fjárhagsáætlunar, sem meirihlutinn kynnti á borgarstjórnarfundi í gær.
Í inngangi að greinargerðinni segir Dagur B. Eggertsson borgarstjóri að launa- og rekstrarkostnaður muni verða dreginn saman á næstu þremur árum. Í samtali við Morgunblaðið segir hann að uppsagnir muni heyra til undantekninga. Í umfjöllun um fjármál borgarinnar í blaðinu í dag segir Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokks, áætlun meirihlutans varasama og að staðan á rekstri borgarinnar sé skelfileg.