Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli erfingja Steingríms Hermannssonar gegn Lánasjóði íslenskra námsmanna (LÍN). Málið snýr að láni sem tekið var af syni Steingríms Hermannsonar, Steingrími Neil, en það féll á gjalddaga en fyrir dómnum var tekist á um hvort að erfingjarnir bæru ábyrgð á láninu í ljósi þess að LÍN hefði ekki tilkynnt þeim um að lánið hefði fallið á gjalddaga.
Taldi Hæstiréttur að erfingjar Steingríms hefðu ekki sýnt fram á að fastmótuð stjórnsýsluframkvæmd hefði til staðar hjá LÍN við innheimtu námslána eftir andlát ábyrgðarmanns og að henni hefði verið breytt á óheimilan hátt. Jafnframt var fallist á að erfingjarnir hefðu ekki réttmætar væntingar um að innheimtu gagnvart þeim í skjóli ábyrgðarskuldbindingar Steingríms yrði hagað með öðrum hætti en birtar reglur LÍN hefðu kveðið á um.
Hins vegar segir í dómnum að LÍN hafi brugðist tilkynningaskyldu sinni gagnvart ábyrgðarmönnunum en að hann hafi fullnægt skyldum sínum með því að bjóða þeim að gefa út nýtt lán með eftirstöðvum lánsins. Hæstiréttur féllst þar með á dómkröfu LÍN og erfingjum Steingríms þar með gert að gangast í ábyrgð fyrir og greiða eftirstöðvar lánsins.
„Dómurinn sýnir að lögin um ábyrgðarmenn frá árinu 2009 eru marklaus og að ábyrgðarmenn hafa lítinn sem engan rétt gagnvart lánastofnunum,“ segir Guðmundur Steingrímsson, þingmaður Bjartrar Framtíðar og einn erfingja Steingríms Hermannssonar, en hann vill ekki tjá sig um dóminn að öðru leyti.