Fái nauðasamning fyrir áramót

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Styrmir Kári

Markmið frumvarps fjármálaráðherra um breytingar á lögum um tekjuskatt, lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki og lögum um fjármálafyrirtæki sem samþykkt var á Alþingi í gær er að skýra nokkur atriði sem talið var nauðsynlegt að gera til þess að auðvelda slitabúum fallinna fjármálafyrirtækja gerð nauðasamninga. Þetta kemur fram í greinargerð með frumvarpinu en komið hafi í ljós á undanförnum vikum að þess væri þörf.

Frumvarpið hafi verið lagt fram í þeim tilgangi að skapa frekari forsendur fyrir því að lögaðilar sem falla undir skattskyldusvið laga um stöðugleikaskatt geti lokið þeim áfanga í slitameðferð að hafa fengið nauðasamning staðfestan af dómstólum fyrir næstu áramót eins og segir í greinargerðinni. Um er að ræða fjórar meginbreytingar sem lögin hafa í för með sér. 

Fyrir það fyrsta er um að ræða breytingu „sem lýtur að skattlagningu vaxta vegna skuldabréfa sem lögaðilar, sem áður störfuðu sem við­skipta­bankar eða sparisjóðir, gefa út í eigin nafni sem lið í fullnustu nauðasamnings við kröfuhafa sína. Nánar tiltekið er lagt til að hvers konar vextir af slíkum skuldabréfum, þ.m.t. afföll, verði undanþegnir tekjuskatti í hendi raunverulegs eiganda skuldabréfs sem ekki ber ótakmarkaða skattskyldu á Íslandi.“

Í annan stað er fyrir að fara breytingu sem lýtur að afmörkun skattskyldu samkvæmt lögum um sérstakan skatt á fjármálafyrirtæki. Með breytingunni er skýrlega kveðið á um að skattskylda slitabú hinna föllnu fjármálafyrirtækja falli niður að fenginni endanlegri staðfestingu dómstóla á nauðasamningi í samræmi við áform stjórnvalda í þeim efnum. Eins og lögin voru áður kom ekki skýrt fram að slíkur skattur félli þar með niður við þær aðstæður.

Í þriðja lagi er um að ræða tvær efnislegar breytingar á lögum um fjármálafyrirtæki. Annars vegar breyting á hlutfalli á bak við samþykki nauðasamningsfrumvarps eftir fjárhæðum og hins vegar að slitastjórnir hafi heimild til þess að gera tillögu að því á kröfuhafafundi að aðeins þeir kröfuhafar sem skráðir eru í kröfuskrá á þeim degi sem tilgreindur er í nauðsamningsfrumvarpi hafi heimild til þess að greiða atkvæði um frumvarpið.

Ennfremur eru lagðar til nokkrar lagfæringar á ákvæðum til að auka skýrleika þeirra.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert