Íslensk heimili ekki búin undir hamfarir

Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða krossins á Íslandi, Land Rover verksmiðjunnar …
Verkefnið er samstarfsverkefni Rauða krossins á Íslandi, Land Rover verksmiðjunnar og BL, umboðsaðila Land Rover á Íslandi sem koma að verkefninu á myndarlegan hátt með styrkveitingu en útvega einnig ökutæki.

Íslensk heimili eru almennt ekki búin undir náttúruhamfarir að sögn Jóns Brynjars Birgissonar, sviðsstjóra neyðarvarna hjá Rauða krossinum. Samtökin vilja breyta þessu, en um sl. helgi hófst átaksverkefnið „3 dagar: Viðnámsþróttur almennings á Íslandi við náttúruhamförum“.

Verkefnið gengur út á það að fræða almenning um mikilvægi þess að vera við öllu búin þegar kemur að hamförum á Íslandi og að geta verið sjálfum sér næg í að minnst þrjá daga berist björgun ekki strax.

Haft er eftir Jóni í tilkynningu að Rauði krossinn hafi allt frá Vestmannaeyjagosinu sinnt neyðarvörnum og sé fræðsla almennings einn lykilþáttur í því starfi.

Hann sagði einnig að heimili á Íslandi væru almennt ekki undirbúin undir hamfarir þótt ekki hefði farið fram nein ítarleg úttekt á því. Þetta verkefni muni vonandi bæta vel úr því.

„Markmið Rauða krossins er að efla neyðarvarnir með fræðslu fyrir almenning. Helstu efnistök eru gerð heimilisáætlana, fræðsla um viðlagakassa, þekking á helstu áhættuþáttum og viðbrögð við þeim, fjöldahjálparstöðvar og sálrænn stuðningur. Fræðslan mun fara fram á 25 stöðum á Íslandi og hver fræðsla mun taka um 2 klukkustundir. Einnig munu fara fram stærri æfingar með þátttöku almennings. Námskeiðin munu hefjast í upphafi næsta árs og verða nánar auglýst á hverjum stað fyrir sig og verða þau öllum að kostnaðarlausu,“ segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert