Samfylkingin óskar eftir styrkjum

Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar.
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar. mbl.is/Ómar

Samfylkingin hefur sett af stað fjáröflunarátak í annað sinn meðal flokksfólks til þess að búa í haginn fyrir kosningabaráttuna 2017. Allir flokksfélagar eru beðnir um að styrkja Samfylkinguna um 2.890 krónur á ári frá 2014-2016. Í tilkynningu frá Samfylkingunni segir: „Í fyrra hófst sóknarátakið og þá tóku um 2.000 félagar þátt og söfnuðu nærri 5 milljónum króna.“ 

Í tilkynningunni segir einnig að engum beri skylda til að greiða þessa upphæð og að hún tengist hvorki réttindum né skyldum félaga í Samfylkingunni.

Þá segir ennfremur að ríkisstjórnarflokkarnir hafi safnað tugmilljónum meira en Samfylkingin frá fyrirtækjum árið 2014 og að óbreyttu mun það leiða til þess að þeir munu hafa umtalsvert forskot á að koma upplýsingum og skilaboðum til kjósenda í aðdraganda næstu alþingiskosninga. 

„Það skiptir auðvitað rosalegu máli að við höfum fjárhagslegt bolmagn til þess að standa öðrum flokkum snúning, það eru til flokkar í landinu sem berjast fyrir sérhagsmunum og eiga kannski auðveldara með að fjármagna sig þess vegna. Við berjumst fyrir almannahagsmunum og því skiptir máli að flokksmenn standi að baki okkur,“ segir Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is. Hann segist jafnframt vera bjartsýnn um að flokksmenn taki vel í styrktarbeiðnina.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert