Fimm af sex verkalýðsfélögum starfsmanna álvers Rio Tinto Alcan í Straumsvík hafa samþykkt að boða til allsherjarverkfalls þann 2. desember ef ekki nást samningar fyrir þann tíma. Aðeins félagsmenn í VR höfnuðu því að boða til allsherjarverkfalls.
Forsvarsmenn álversins hafa haldið því fram að verði verkfall gæti það leitt til þess að fyrirtækinu verði lokað.
Gylfi Ingvarsson, talsmaður verkalýðsfélaganna í Straumsvík, segir að í flestum verkalýðsfélögunum hafi verið afgerandi stuðningur fyrir því að boða verkfall og að verkfallsboðunin sé svar við þeirri háttsemi stjórnenda fyrirtækisins að beita áróðri á vinnustaðnum.
Þá hafi verið hætt við boðað allsherjarverkfall í lok sumars í þeirri viðleitni að liðka fyrir viðræðum og freista þess að ná samningum. Það hafi ekki tekist og nú finni menn sig knúna til þess að boða verkfall að nýju.