Samkvæmt nýrri skýrslu OECD um heilbrigðismál, Health at a glance 2015, eru íslenskir karlmenn ekki lengur langlífastir á heimsvísu. Árið 2013 var meðalævilengd þeirra 80,5 ár en svissneskir karlmenn tróna á toppnum með 80,7 ár.
Á heildina er Ísland í 8. sæti með meðalævilengd upp á 82,1 ár en íslenskar konur eru komnar niður í 16. sæti meðal kynsystra sinna. Við fæðingu eru líkur á að þær lifi í 83,7 ár að meðaltali. Japanskar konur verða allra elstar, eða 86,6 ára að jafnaði. Næstar koma konur frá Spáni, Frakklandi og Ítalíu. Af Norðurlandaþjóðum verða konur í Finnlandi elstar, eru í 8. sæti á lista OECD með 84,1 árs lífaldur.
Meðalævilengd sýnir hve mörg æviár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans, eins og segir á vef Hagstofunnar.
Þó að meðalævi Íslendinga hafi verið að lengjast á seinni árum þá virðist sem aðrar þjóðir hafi verið að fara framúr okkur. Á því eru engar haldbærar og vísindalega sannaðar skýringar, segir einn öldrunarlæknir sem Morgunblaðið ræddi við. Ástæðurnar geti verið margvíslegar; t.d. að aðrar þjóðir hafi tekið sig á í lifnaðarháttum og Íslendingar farið hægar í sakirnar að bæta sinn lífstíl, með aukinni hreyfingu og bættu mataræði. Einnig er á það bent að sökum fámennis hér á landi megi lítið út af bera í tölfræðinni, til eða frá.
Langlífasta þjóð heims, samkvæmt OECD, er Japanir með 83,4 ár. Spánverjar og Svisslendingar koma þar í næstu sætum á eftir. Íslendingar eru sem fyrr segir í 8. sæti, efstir Norðurlandaþjóða, en á hæla okkar koma Svíar með 82 ára meðalævilengd að jafnaði.
Lífslíkur fólks innan ríkja OECD eru 80,4 ár, eða 10 árum meiri en árið 1970. Lífslíkur hafa stöðugt haldið áfram að aukast meðal OECD-ríkja, eða um 3-4 mánuði á hverju ári. Þá kemur fram í skýrslunni að lífslíkur í mikilvægum nýhagkerfum, eins og á Indlandi, í Brasilíu og Kína, hafa aukist á undanförnum áratugum og nálgast hratt meðaltal OECD-ríkja. Minni árangur hefur náðst t.d. í Suður-Afríku, einkum vegna HIV-faraldurs, og Rússlandi, sem skýrist af aukinni áhættuhegðun karla þar í landi.
Í ríkjum OECD geta konur gert ráð fyrir að lifa fimm árum lengur en karlar, en það bil hefur minnkað um 1,5 ár frá 1990. Fram kemur í skýrslu OECD að hámenntað fólk megi búast við að lifa sex árum lengur að meðaltali en fólk með minnstu menntun. Er þessi munur sagður sérlega áberandi meðal karla, þar sem munurinn er að jafnaði nærri átta ár.
Þó að einhverjar þjóðir séu að verða eldri en Íslendingar þá er ungbarnadauði hvergi minni en hér á landi. Árið 2014 var ungbarnadauði 2,1 barn af hverjum 1.000 lifandi fæddum.