Tekin var ákvörðun á fundi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra og Davids Camerons, forsætisráðherra Bretlands, 28. október að setja af stað vinnu við að kanna mögulega raforkutengingu á milli landanna í gegnum sæstreng. Ennfremur að könnuð yrðu nánar þau efnahagslegu og félagslegu áhrif sem lagning slíks sæstrengs gæti haft í för með sér. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá atvinnuvegaráðuneytinu.
„Nú þegar er að störfum á vegum atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis verkefnisstjórn sem hefur það hlutverk að hafa yfirumsjón með framgangi ákveðinna verkefna um áhrifaþætti sæstrengs. Á fundi ríkisstjórnar í morgun var samþykkt að verkefnisstjórnin taki einnig við því verkefni að eiga könnunarviðræður við Breta um lagningu sæstrengs. Verkefnisstjórnin verður stækkuð af því tilefni og í hana bætast fulltrúar frá forsætisráðuneyti og fjármála- og efnahagsráðuneyti,“ segir ennfremur í tilkynningunni.
Vinnan verði áfram leidd af atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytinu en hún felist í könnunarviðræðum við aðila sem bresk stjórnvöld tilnefna í verkefnið um verðlagningu, fjármögnun og regluverk við lagningu sæstrengs. „Tekið hefur verið fram að athugun á verkefninu er á frumstigi á Íslandi og ákvörðun um framhald þess mun krefjast mikillar yfirlegu og umræðu. Stefnt er að því að verkefnisstjórnin skili niðurstöðum úr þessum könnunarviðræðum innan sex mánaða.“