Samstarf og samtal í stað herlúðra

Ragnheiður Elín Árnadóttir,
Ragnheiður Elín Árnadóttir, mbl.is/Rósa Braga

Ragnheiður Elín Árnadóttir, iðnaðar- og viðskiptaráðherra, segist hafa fundist það „smartara“ ef söngkonan Björk Guðmundsdóttir hefði hvatt til samstarfs og samtal um náttúruvernd „frekar en að biðja alþjóðapressuna um þennan stuðning gegn okkur í ríkisstjórninni.“ Þetta kemur fram á Facebook síðu ráðherrans.

Það vakti athygli í dag þegar náttúruverndarsamtökin Gætum garðsins héldu blaðamannafund í Gamla bíói. Þar kynntu Andri Snær Magnason og söngkonan Björk Guðmundsdóttir samtökin og kröfu þeirra um að miðhá­lend­inu eða „hjarta Íslands,“ eins og þau kalla svæðið, verði breytt í þjóðgarð og komið verði í veg fyr­ir fyr­ir­ætlan­ir um há­spennu­lín­ur og frek­ari virkj­an­ir á miðhá­lend­inu.

Fyrri frétt mbl.is: „Það er ekki til nein álfaorka“

„Ég hef aldrei rætt umhverfis og orkumál við Björk - myndi gjarnan vilja gera það. Ég held að við sem sitjum í núverandi ríkisstjórn séum ekki þeir miklu andstæðingar hennar eins og mér sýnist hafa verið dregið upp á blaðamannafundinum áðan. Ég held að báðar séum við unnendur íslenskrar náttúru og viljum framtíð landsins okkar og þjóðar sem allra besta,“ skrifar Ragnheiður.

Á blaðamannafundinum í dag skaut Björk föstum skotum á ríkisstjórnina og bað um stuðning gegn stefnu hennar. Að mati Ragnheiðar var ýmislegt fullyrt á blaðamannafundinum sem er einfaldlega rangt. Segir hún það mun vænlegri leið að setjast yfir þau atriði og athuga hvað þeim greinir á „áður en blásið er í herlúðra.“

Björk er stórkostlegur tónlistarmaður sem ég hef dáð og dýrkað um áratuga skeið. Ég hef kannski verið of feimin við stórstjörnuna til að biðja hana að hitta mig og ræða þessi mál. Kannski að ég manni mig upp í það.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert