Eva Bjarnadóttir gekk á gúmmístígvélum frá Amsterdam til Halfsmanhof í Þýskalandi en það var hluti af göngugjörningi hennar „My true story“ sem hún setti fram á listahátíð í Gelsenkirchen. Eva er í myndlistarnámi við Rietveld-akademíuna í Amsterdam og að lokinni göngu bauð hún gestum listahátíðarinnar að koma upp á herbergi sitt í gistiálmunni og spjalla við sig um ferðina. Þannig „málaði“ hún nýja mynd af þessari ferð í hvert sinn sem hún sagði frá henni.
Ég hugsaði mikið til ömmu og afa á þessari göngu því þau hafa oft sagt mér frá þeirri byltingu þegar gúmmískórnir komu til sögunnar í þeirra lífi í Öræfasveitinni. Amma mín, Guðmunda Jónsdóttir frá Fagurhólsmýri, er fædd árið 1929 og hún var sjö ára þegar hún fékk fyrst gúmmískó. Fram að því hafði hún verið í skinnskóm. Afi minn, Sigurgeir Jónsson, man eftir sér einvörðungu á gúmmískóm en hann er fæddur 1932.
Við erum svo upptekin af því í nútímasamfélagi að nota réttu græjurnar í öllu sem við tökum okkur fyrir hendur. Samfélagið býður upp á það, það er hægt að finna eitthvað sérhæft fyrir nánast allar okkar gjörðir. Ég vildi sneiða hjá þessum brjálæðislega nútímaundirbúningi fyrir gönguna mína,“ segir Eva, en hún var í hópi nemanda við skólann sem var boðið að taka þátt í listahátíðinni Urbane Künste Ruhr í Þýskalandi í október sl. Innlegg Evu var að ganga heiman frá sér í Amsterdam til Halfsmanhof í Þýskalandi í Gelsenkirchen, þar sem listahátíðin fór fram.
„Hreyfanleiki var þemað sem hópurinn minn fékk til að vinna með á þessari hátíð. Við fengum frjálsar hendur og ég ákvað að taka þetta bókstaflega og skoða hreyfanleikann sem líkaminn hefur upp á að bjóða. Mín nálgun var þessi tíu daga ganga og með henni langaði mig að skoða hvernig við mannfólkið skynjum og sjáum veruleikann á ólíkan hátt. Hvernig við erum stöðugt að safna brotum í gegnum eigin upplifun, hvernig hver og einn upplifir veruleikann á persónulegan máta. Ótal margt hefur þar áhrif, bakgrunnur fólks og áhugasvið, hvað maður vill sjá og hvað maður getur séð. Allt fólkið sem ég hitti á leiðinni hafði líka mikil áhrif á hvernig ég upplifði þessa göngu. Gangan er í raun endalaus og hún er hluti af því að vera til.“
Eva settið verkið sitt fram á þann hátt að þegar hún kom á síðasta degi göngunnar í bæinn þar sem listahátíðin var, þá bauð hún gestum hátíðarinnar að koma upp á herbergi sitt í gistiálmunni og spjalla við sig um ferðina. Titill verks hennar var „My true story“.
„Þetta var einhverskonar göngugjörningur og þetta hélt í raun áfram, þetta var sama rútínan og dagana á undan: Ég kom á áfangastað, fékk að gista og hitti fólk. Framsetningin byggðist algerlega á samtölum mínum við þá sem komu til mín upp á herbergi, þetta snerist um að hitta fólk og ég talaði um hvað ég hefði upplifað og svaraði spurningum. Við töluðum líka um allt mögulegt annað. Heimspekilega pælingin í þessu er sú að í hvert skipti sem ég segi söguna af því hvað ég sá, upplifði og gerði á þessari göngu, þá þróast hún í raun alltaf upp á nýtt. Sagan er aldrei sú sama og hún er aldrei fastmótuð í ákveðið form. Ég mála í raun nýja mynd af þessari ferð í hvert sinn sem ég segi frá henni. Það fer til dæmis eftir því í hvernig skapi ég er, í hvernig skapi sá eða sú er í sem ég er að tala við og hvernig samtölin þróast. Hluti verksins er þessi persónulega samverustund.“
Á tíu daga göngu sinni valdi Eva leiðina út frá gististöðum sem hún fann á netinu og hún notaði Google maps til að finna stystu leið á hverjum tíma á milli tveggja staða.
„Þetta var vissulega nokkuð erfitt fyrstu tvo dagana, en svo varð það miklu auðveldara. Ég er ekkert vön því að standa upp á hverjum morgni og ganga 20 til 30 kílómetra. En líkaminn venst því ótrúlega fljótt. Peter kærastinn minn var með mér fyrstu þrjá dagana, en hann þurfti síðan að fara til að mæta í vinnuna sem er í Noregi. Við kvöddumst á gatnamótum, gengum hvort í sína áttina, hann áleiðis til Noregs en ég til Þýskalands, og við snerum okkur við í öðru hverju skrefi og veifuðum. Þetta var ótrúlega dramatískur aðskilnaður en á sama tíma skemmtileg stund,“ segir Eva og hlær, en hún og Peter búa saman í Amsterdam.
„Hann er á sjó í Noregi og er í burtu í sex vikur í einu. Við erum orðin vön því lífsmunstri, þannig hefur það verið hjá okkur undanfarin ár.“
Eva er á fjórða ári í myndlistarnáminu í Rietveld-akademíunni í Amsterdam og hún mun útskrifast þaðan næsta sumar.
„Þetta nám hefur verið meiriháttar tímabil í lífi mínu. Augu mín hafa opnast fyrir mörgu og maður þróar sjálfan sig í svona námi. Myndlist er ofsalega opið fyrirbæri, eitthvað sem snýst mestmegnis um að finna sjálfan sig og finna út úr því hvernig maður getur þróað sína list á persónulegan máta. Og þá skiptir engu máli á hvaða hátt það er sett fram eða í gegnum hvaða miðil. En maður þarf að finna kjarna sem gerir mann frjóan og fær mann til að halda áfram að skapa, endalaust.“