Hlutdeild hinna ríkustu hefur farið stöðugt minnkandi frá því hún var hæst á flesta mælikvarða. Hlutdeild efstu 5% þeirra sem eiga mestar heildaeignir hefur minnkað um 10 prósentustig frá 2010. Efsta 0,1% landsmanna að tekjum til átti 6,1% eigin fjár þjóðarinnar árið 2008 en á nú 3,5.
Þetta er kemur fram í svari Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, við fyrirspurn frá Árna Páli Árnasyni, formanni Samfylkingarinnar.
Bjarni bendir á í svari sínu að skv. tölum OECD þá sé Ísland í fjórða efsta sæti aðildarríkja OECD að því er varðar hlutdeild tekjulægstu 10 prósentanna í heildartekjum og í þriðja sæti að því er varðar hlutdeild tekjulægsta fimmtungsins.
Í svarinu kemur fram að 5% ríkustu Íslendinganna áttu 46,1% af eigin fé allra landsmanna árið 2014. Eigið fé er skilgreint sem heildareignir að frádregnum skuldum. Árið 2014 nam heildar eigið fé ríkustu 5% landsmanna tæplega 1.128 milljörðum kr.
Sé litið til ríkasta 1% Íslendinga 2014 er hlutfall þeirra af eigin fé allra landsmanna 20,7% eða um 507,2 milljarðar króna. Þá á ríkasta 0,1% landsmanna 167,7 milljarða kr. og hlutfall þeirra af eigin fé allra landsmanna 6,9%.
Heildareignir þeirra 5% landsmanna sem áttu mestar eignir 2014 voru alls metnar á 1.321,9 milljarða kr. og hlutfall þeirra af heildareignum allra landsmanna er 31,4%. Heildareignir 1% prósent landsmanna sem mest eiga eru 548,8 milljarðar kr. og hlutfall þeirra af heildareignum landsmanna er 13%. Hjá 0,1% hópnum eru eignir 174,8 milljarðar króna og hlutfallið 4,2%.
Heildartekjur með fjármagnstekjum hjá tekjuhæstu 5% landsmanna eru 285,8 milljarðar kr. og hlutfall af tekjum allra landsmanna er 22%. Hjá tekjuhæsta 1% eru tekjurnar 111,4 milljarðar kr. og hlutfall af heildartekjum landsmanna 8,6%. Hjá tekjuhæsta 0,1% eru tekjurnar 38,7 milljarðar kr. og hlutfall tekna þeirra af tekjum allra landsmanna er 3%.
Án fjármagnstekna voru tekjuhæstu 5% árið 2014 með 230,3 milljarða kr. í tekjur og hlutfall tekna þeirra af tekjum allra landsmanna er 19,2%. Hjá tekjuhæsta 1% voru heildartekjur 70 milljarðar kr. og hlutfallið 5,8% af heildartekjum. Hjá tekjuhæsta 0,1% voru heildartekjur 13,7 milljarðar kr. og hlutfall tekna þeirra af tekjum allra landsmanna 1,1%.
Þá eiga tekjuhæstu 10% landsmanna 36,4% af eign fé en 32,2% af heildareignum landsmanna. Tekjuhæstu 5% landsmanna eiga 24,3% af eigin fé en 19,9% af heildareignum og tekjuhæsta 1% landsmanna eiga 10,7% af eigin fé en 7,4% af heildareignum. Tekjuhæsta 0,1% landsmanna eiga 3,5% af eigin fé en 2,1% af heildareignum.
Gögnum er raðað eftir fjölskyldunúmerum þannig hjón teljast saman sem einn. Hver hópur samanstendur því af einhleypingum og hjónum. Árið 2014 voru fjölskyldur tæplega 205 þúsund talsins og samanstendur 0,1% hópurinn því af 140 til 204 fjölskyldum.
Hér má sjá svarið í heild sinni, þar sem má sjá samanburð aftur til ársins 1997.