Einn var fluttur á sjúkrahúsið í Neskaupstað í morgun eftir bílveltu á Öxi. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Austurlandi má rekja slysið til hálku og ísingar.
Fimm voru í bílnum en um erlenda ferðamenn á bílaleigubíl var að ræða. Víða er hált á þjóðvegum landsins, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni.
Hálkublettir eru nokkuð víða á Suðurlandi og Vesturlandi, einkum á fjallvegum.
Á Vestfjörðum er hálka á Steingrímsfjarðarheiði og Kleifaheiði en hálkublettir á Hálfdán, Hrafnseyrarheiði og Dynjandisheiði og einnig á vegum í nágrenni Hólmavíkur.
Hálka er á Vatnsskarði og einnig eru hálkublettir nokkuð víða á Norðurlandi.
Vegir á Austurlandi eru að mestu greiðfærir á láglendi en hálkublettir eru í Heiðarenda, á Fjarðarheiði, Fagradal og í Oddsskarði. Greiðfært er með suðausturströndinni að Kirkjubæjarklaustri en þar taka við hálkublettir.