Tilkynning barst lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu um klukkan hálf þrjú um að ekið hafi verið á barn á reiðhjóli á Hofsvallagötu í Reykjavík. Einnig var tilkynnt skömmu eftir klukkan fjögur að ekið hafi verið á reiðhjólamann á Snorrabraut. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu mun í báðum tilfellum hafa verið um minniháttar slys að ræða.
Ennfremur barst tilkynning skömmu fyrir klukkan tvö um reiðhjólamann sem hafði fallið af reiðhjóli sínu og slasast og sótti sjúkrabifreið hann og flutti á slysadeild. Skömmu eftir fjögur var tilkynnt um bílveltu á Gjáhellu í Hafnarfirði. Ekki er vitað um meiðsl.