Handtekinn er hann keypti flugmiða handa móður sinni

Maðurinn greiddi fyrir farmiðann með reiðufé.
Maðurinn greiddi fyrir farmiðann með reiðufé. mbl.is/Júlíus

Hæstiréttur hefur dæmt karlmann til að sæta gæsluvarðhaldi til 17. nóvember. Maðurinn er grunaður um ýmis brot, m.a. fjársvik sem eru fólgin í því að svíkja út farmiða í flug með því að gefa upp án heimildar númer greiðslukorts annars manns. 

HInn 3. nóvember úrskurðaði Héraðsdómur Reykjaness manninn í farbann til 17. þessa mánaðar, en Hæstiréttur ákvað á föstudag að maðurinn skyldi hins vegar sæta gæsluvarðhaldi.

Hæstiréttur segir gögn málsins benda eindregið til að maðurinn hafi, meðan fyrra brot hans var til rannsóknar, brotið ítrekað af sér og má því ætla að hann muni halda áfram uppteknum hætti gangi hann laus. Er því fullnægt skilyrðum til að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. 

Ákæra gefin út á hendur manninum

Lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur haft ætluð fjársvik mannsins til rannsóknar frá því í júlí. Meðan málið var til rannsóknar hjá lögreglu sat maðurinn í gæsluvarðhaldi frá 28. júlí til 26. ágúst 2015, en frá þeim tíma hefur hann sætt farbanni. Fram kemur í dómi Hæstaréttar, að vegna umræddra sakargifta hafi 4. nóvember verið gefin út ákæra á hendur manninum.

Þá segir að 31. október hafi lögreglu borist tilkynning frá flugfélagi að ítrekað hefði verið reynt dagana á undan að kaupa farmiða til landsins á söluvef félagsins með illa fengnum greiðslukortanúmerum fyrir nafngreindan farþega sem mun vera móðir mannins. Beindist grunur að honum og kom hann síðan á söluskrifstofu flugfélagsins og greiddi fyrir farmiðann með reiðufé. Var hann handtekinn vegna þessara sakargifta 2. nóvember og við skýrslutöku daginn eftir kannaðist hann við að hafa við bókun á farmiða gefið upp greiðslukortanúmer sér óviðkomandi.

Ónotaður fatnaður í íbúð mannsins að andvirði 945.000 kr.

Eftir að maðurinn hafði verið tekinn höndum leitaði lögregla í herbergi sem hann hafði til umráða á gistiheimili og fann þar ónotaðan fatnað með verðmerkingum að andvirði 943.730 krónur. Við skýrslugjöf hjá lögreglu 5. nóvember 2015 neitaði varnaraðili að gefa skýringar á hvernig á því stæði að þessar vörur hafi fundist hjá honum.

Hæstiréttur segir að af hálfu lögreglu hafi ekki verið færð fyrir því viðhlítandi rök að þörf sé á að maðurinn sæti gæsluvarðhaldi á grundvelli a. og b. liða 1. mgr. 95. gr. laga um meðferð sakamála. 

„Aftur á móti benda gögn málsins eindregið til að varnaraðili hafi, meðan fyrra brot hans var til rannsóknar, brotið ítrekað af sér og má því ætla að hann muni halda áfram uppteknum hætti gangi hann laus. Er því fullnægt skilyrðum c. liðar sömu málsgreinar til að honum verði gert að sæta gæsluvarðhaldi. Verður krafa sóknaraðila því tekin til greina á þeim grundvelli en engin efni eru til að varnaraðili sæti einangrun í gæsluvarðhaldinu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert