Leggja fram stefnu gegn SALEK-hópnum

Vilhjálmur Birgisson er formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson er formaður VLFA. mbl.is/Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Seinna í dag verður lögð fram stefna Verkalýðsfélags Akraness (VLFA) gegn öllum aðilum SALEK samkomulagsins sem var undirritað í síðasta mánuði. Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA, segir að um sé að ræða „klárt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur“ og verið sé að taka frjálsan samningsrétt af félögunum.

Vilhjálmur segir að félagið hafi unnið alla helgina að því að útbúa stefnuna og nú beðið eftir staðfestingu frá ASÍ um að sambandið muni segja sig frá málinu fyrir félagsdómi. Alla jafna sé ASÍ í forsvari félagsdóms en nú sé ASÍ stefnt sem aðila að SALEK samkomulaginu.

Frétt mbl.is: Deilt um innihald SALEK samkomulagsins

Segir Vilhjálmur að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur séu stéttarfélögin með frjálsan samningsrétt og engir aðrir en stéttarfélögin geti undirritað kjarasamninga nema landssamtökum sé falið umboðið. Svo hafi ekki verið í þessu máli og í raun sé samkomulagið mun víðtækara en lögin gefa heimild til.

„Hver samdi um þetta fyrir Verkalýðsfélag Akraness?“

Í þessu tilfelli sé búið að undirrita skuldbindandi samkomulag þar sem skýrt sé kveðið á um hversu háar launahækkanir mega vera í komandi samningum.

Þá verði einnig fyrri samningar frá nóvember 2013 dregnir frá komandi samningum um það hversu miklar launahækkanir megi vera á næstu árum. „Þetta er að sjálfsögðu að okkar mati klárt brot á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur,“ segir Vilhjálmur.

Frétt mbl.is: Heildasamkomulag á vinnumarkaði

Bendir hann á að nú sé VLFA í samningaviðræðum fyrir hönd starfsmanna Akraness við launanefnd Sambands sveitarfélaga. Þegar mætt sé á samningsfund sé þeim sagt að til skiptanna til ársloka 2018 séu 32%, en að draga þurfi 11,4% frá þeirri tölu vegna fyrri samninga og svo 1,5% aukalega vegna iðgjalda í lífeyrissjóð.

„Hver samdi um þetta fyrir Verkalýðsfélag Akraness?“ spyr Vilhjálmur og segir engan hafa haft heimild til þess. „Það var bara búið að ákveða fyrirfram hverjar þessar hækkanir ættu að vera,“ bætir hann við.

Gróf skerðing á samningsfrelsi

Vilhjálmur segir að meta eigi launahækkanir eftir getu hverrar atvinnugreinar fyrir sig. Nefnir hann í því sambandi sjávarútveginn þar sem hann segir að arðgreiðslur hafi verið í tugum milljarða undanfarið. Þar eigi starfsfólk að njóta þegar vel gengur, en SALEK samkomulagið komi í veg fyrir það.

Þá gagnrýnir hann stofnun Þjóðhagsstofnunar sem hann segir að muni ákveða hversu mikið ráðrúm sé til launahækkana. Þannig hafi Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og Samtök atvinnulífsins alltaf sagt að aðeins væri svigrúm fyrir 2,5 til 3,5% launahækkanir, þótt samið hafi verið um hærri upphæðir. Segir hann þetta verða veruleikann ef SALEK gangi upp. „Þetta er að okkar mati gróf skerðing á samningsfrelsi stéttarfélaganna,“ segir hann.

Frétt mbl.is: Lífeyrisiðgjald fer í 15,5%

Aðspurður hvort hann telji þessa afstöðu VLFA  ekki koma niður á stöðugleika segir Vilhjálmur að horfa verði á heildarmyndina. Hér séu mun lakari kjör en á Norðurlöndunum sem vinnumarkaðslíkanið sé kennt við.

„Það þarf að taka allt eins og það leggur sig með í reikninginn, t.d. vaxtaumhverfi,“ segir Vilhjálmur og bendir á að hér á landi séu heildarvextir um 9% meðan þeir séu um 1,5% á Norðurlöndunum „Ef talað væri um þessa hluti samhliða, þá hefði mátt ræða þetta,“ segir hann um SALEK- samkomulagið.

Salek-hópurinn skrifar undir í síðasta mánuði.
Salek-hópurinn skrifar undir í síðasta mánuði. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka