Mikill fjöldi fólks er nú saman kominn við lögreglustöðina við Hverfisgötu í Reykjavík. Boðað var til mótmæla við lögreglustöðina í dag í kjölfar frétta af því að tveir karlmenn, sem grunaðir eru um tvær nauðganir, hafi ekki verið hnepptir í gæsluvarðhald.
Mikið er af konum og körlum á svæðinu að sögn blaðamanns mbl.is sem er á staðnum og einnig er nokkuð um börn. Lögregla er einnig sýnileg með hliðstæðum hætti og við mótmæli við Alþingishúsið en enn streymir að fólk úr öllum áttum.
Sigríður Björk Guðjónsdóttir, lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins, og Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjóra, komu út fyrir lögreglustöðina eftir að mótmælin hófust klukkan 17.00 og ræddu við mótmælendur. Buðu þær forystumönnum mótmælanna að koma inn fyrir eftir að þeim væri lokið og ræða við sig um stöðu málsins.
Uppfært 17.37:
Fjöldi fólks hefur gripið tækifærið og stigið í pontu með hvetjandi skilaboðum til þátttakenda í mótmælunum og sögum af eigin ferli vegna kynferðisbrotamála. Rétt í þessu steig Sigríður Björk í pontu og sagði mikilvægt að finna fyrir samstöðunni og að lögreglan myndi gera sitt besta til að gera betur. Því var svarað af mannfjöldanum með þeim orðum að það væri ekki nóg og var púað á lögreglustjórann þar til hún fór út pontu.
Uppfært 18.29:
Enn er talsverður fjöldi mótmælenda við lögreglustöðina að sögn blaðamanns mbl.is og hafa tugir fólks stigið í potu og ávarpað mótmælendur.