Segir íbúðina ekki sérútbúna

Alda Hrönn Jóhannsdóttir.
Alda Hrönn Jóhannsdóttir. mbl.is/Júlíus Sigurjónsson

Orðum aukið er að íbúð í Hlíðahverfinu í Reykjavík hafi verið „sérútbúin fyrir þessar athafnir.“ Þetta sagði Alda Hrönn Jóhannsdóttir, yfirlögfræðingur á skrifstofu lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu, í Sídegisútvarpi Rásar 2 í dag. Tveir menn eru grunaðir um að hafa nauðgað konum í íbúðinni en sú ákvörðun lögreglu að fara ekki fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum hefur vakið hörð viðbrögð í dag.

Fram kom í frétt Fréttablaðisins í dag að íbúðin hafi verið sérútbúin til þess að beita kynferðislegu ofbeldi með tækjum til obeldisiðkunar. Alda Hrönn sagði þetta ekki rétt, en lögreglan sendi frá sér tilkynningu í dag um að ekki væri allt sem fram hefði komið í fjölmiðlum í dag í samræmi við þau gögn sem hún hefði undir höndum. Alda sagði það einna helst vera atriðið með íbúðina. 

Fundað hefði verið um málið í hádeginu hjá lögreglunni en engin niðurstaða orðið á þeim fundi. Málið hafi verið rýnt og farið yfir málsatvik. Ekki hafi verið tekin afstaða til þess hvort um mistök hafi verið að ræða þegar ekki var ákveðið að fara fram á gæsluvarðhald yfir mönnunum tveimur. Þessi ákvörðun hafi verið tekin og eftir væri að fara yfir hvort sú ákvörðun hafi verið rétt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert