Hættulegur umhverfi sínu

mbl.is/Sverrir

Hæstiréttur hefur staðfest gæsluvarðhald yfir manni sem er grunaður um rán, valdstjórnarbrot, tilraun til stórfelldrar líkamsárásar og hættubrot. Maðurinn rændi skartgripaverslun í Hafnafirði í október í félagi við annan mann. Maðurinn ruddist inn í verslunina vopnaður exi og tók með sér skartgripi.

Maðurinn skal sæta gæsluvarðhaldi til 4. desember. 

Í úrskurði Héraðsdóms Reykjavíkur, sem Hæstiréttur hefur nú staðfest, segir að maðurinn hafi setið í gæsluvarðhaldi á grundvelli rannsóknarhagsmuna frá því í október. Í skýrslutöku hjá lögreglu hefur hann neitað sök. Meðákærðu hafa skýrt svo frá hjá lögreglu að maðurinn hafi skipulagt ránið. Brot mannsins geta varðað við allt að 16 ára fangelsi.

Samkvæmt rannsóknargögnum málsins liggi maðurinn undir sterkum grun um rán, valdstjórnarbrot, tilraun til stórfelldrar líkamsárásar og hættubrot. Er lögregla hafði afskipti af honum skaut hann úr gasbyssu í átt að þeim lögreglumönnum sem veittu honum eftirför. Hann skaut auk þess úr byssunni fjórum til fimm skotum upp í loftið á meðan á eftirförinni stóð og beindi byssunni að almennum borgurum.

Lögreglan segir ljóst að maðurinn sé hættulegur umhverfi sínu og það er mat lögreglu að gæsluvarðhald sé nauðsynlegt með tilliti til almannahagsmuna. Myndi það jafnframt særa réttarvitund almennings gengi maðurinn laus.

Maðurinn var því úrskurðaður í gæsluvarðhald á grundvelli almannahagsmuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert