Umhverfisráðherra ætlar að kynna aðgerðaáætlun ríkisstjórnarinnar í loftslagsmálum á Alþingi í næstu viku. Þetta kom fram í svari ráðherrans við óundirbúinni fyrirspurn á þingi í dag. Tók ráðherrann undir umdeild fyrri orð forsætisráðherra um að tækifæri fælust í loftslagsbreytingum.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigrúnu Magnúsdóttur, umhverfisráðherra, út í undirbúning íslenskra stjórnvalda fyrir loftslagsfund Sameinuðu þjóðanna sem hefst í París í lok þessa mánaðar þar sem stefnt er að samkomulagi um að draga verulega úr losun gróðurhúsalofttegunda sem valda loftslagsbreytingum.
Sigrún greindi frá því að unnið væri hörðum höndum við undirbúning fundarins í samvinnuhópi sex ráðuneyta. Í þeim tillögum sem hún hygðist kynna þinginu í næstu viku væru þrjár hugmyndir sem hún vildi fá umræðu um. Þær litu að beinum aðgerðum sem Íslendingar gætu lagt áherslu á, alþjóðlegt samstarf og styrkingu innviða innanlands til að vera betur í stakk búin til að takast á við verkefnin.
Hvatti Árni Páll ráðherrann til dáða en spurði hvort að í losunarbókhaldi Íslands yrði gert ráð fyrir kolefnisfótspori fyrirhugaðrar fjölgunar ferðamanna og þriggja kísilvera sem hugmyndir væru um að reisa hér á landi.
Ráðherrann svaraði þeirri spurningu ekki en tók undir þau orð Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, forsætisráðherra, sem hann lét falla í viðtali við Ríkisútvarpið fyrir nokkru um að tækifæri fælust í loftslagsbreytingum á jörðinni. Árni Páll hafði meðal annars vísað til þeirra orða í fyrirspurn sinni.
„Ég tek samt undir það með forsætisráðherra að í öllum ógnunum geta líka falist ákveðin tækifæri vegna þess að fólk fer að hugsa öðruvísi. Mér finnst ég skilja það að fólk hugsar öðruvísi orðið um loftslagsmál heldur en það gerði fyrir tveimur þremur árum. Við verðum kannski duglegri að afla okkar nýrrar tækni eða þá að ganga betur um þau auðævi sem við eigum og svo framvegis og svo framvegis. Þannig að þar eru tækifæri,“ sagði Sigrún.