Rekið á eftir ráðherrum á þingi

Ráðherrar voru gagnrýndir fyrir seinagang í að leggja fram mál …
Ráðherrar voru gagnrýndir fyrir seinagang í að leggja fram mál í þinginu í dag. Myndin er úr safni. mbl.is/Ómar Óskarsson

Þingmenn stjórnarandstöðunnar gagnrýndu skort á þingmálum frá ríkisstjórninni við upphaf þingfundar í dag. Þingmenn og nefndir sitji auðum höndum þessa dagana. Hvöttu þeir ráðherra til að leggja mál fram sem fyrst svo þingið þurfi ekki að fara yfir þau á hundavaði fyrir þinglok.

Brynhildar Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, kvaddi sér hljóðs um fundarstjórn forseta við upphaf þingfundar í dag og benti á að marga þingnefndir hafi lítið að gera þar sem þingmál skorti. Það setji þingstörfin í uppnám og það hlyti að vera eitthvað sem vilji væri fyrir því að breyta. Flokkur hennar vilji ekki semja um að veita afbrigði fyrir mál sem komi fram eftir mánaðamótin og hvatti ráðherra til að drífa sig í að leggja mál fram á þingi.

Kom fjöldi stjórnarandstöðuþingmanna í pontu í kjölfarið og tóku undir gagnrýni Brynhildar. Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, sagði verkleysi ríkisstjórnarinnar vekja furðu og Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, lagði til að þingnefndir færu í verkfall til að knýja á um að mál kæmu fyrr inn í þingið.

Heiða Kristín Helgadóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, sagði miður að mál kæmu inn í þingið eftir tvær til þrjár vikur og þau væru þá afgreidd á hundavaði. Það væri engum til sóma að hafa svo marga þingmenn að gera ekki neitt. Söknuðu stjórnarandstæðingar jafnframt þess að stjórnarþingmenn þrýstu ekki meira á ríkisstjórnina um að leggja fram mál.

Pönkið lifi enn í allsherjarnefnd

Breytingar á þingsköpun undanfarin ár var sú ástæða sem Vigdís Hauksdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, sagði vera fyrir ástandinu í þinginu nú. Búið væri að hræra svo mikið í þeim að þingið væri vart starfhæft. Þannig hafi það verið mistök að flýta þingsetningu sem hafi leitt til þess að skortur væri á þingmálum nú. Kvótar á þingmannamál þýddu að þingið væri verklaust þrátt fyrir að fjöldi þingmannamála lægi fyrir.

Unnur Brá Konráðsdóttir, formaður allsherjarnefndar Alþingis, sagði að aðeins eitt mál af þeim fimmtíu sem ríkisstjórnin hefði boðað að kæmu inn á borð hennar á þessu þingi væri komið fram. Það hefði þegar verið afgreitt af nefndinni. Nefndin hefði ennfremur þegar undirbúið sig fyrir þennan mikla fjölda mála, meðal annars með ýmsum heimsóknum snemma í vetur.

„Vegna þess að við vorum brýnd til að kvarta meira þá hefur sú sem hér stendur að mínu mati alveg komið þeirri óánægju á framfæri. Þannig að pönkið lifir alveg aðeins í allsherjar- og menntamálanefnd þó að hún sé að sjálfsögðu mjög virðuleg í sínum störfum,“ sagði hún.

Tók Unnur Brá undir hvatningu stjórnarandstöðunnar til ráðherra um að koma fram með fleiri þingmál.

Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
Brynhildur Pétursdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka