Þörfin fyrir aðstoð við áfengis- og vímaefnaneytendur er brýn og vaxandi, en að jafnaði eru um 60 til 70 manns á biðlista eftir meðferð í Hlaðgerðarkoti. Í tilkynningu frá Samhjálp segir að ekki hafi verið hægt að sinna ríflega 400 einstaklingum sem leituðu eftir meðferð í Hlaðgerðarkoti árið 2014 og að horfur fyrir 2015 séu svipaðar.
Samhjálp keypti Hlaðgerðarkot árið 1974 af Mæðrastyrksnefnd Reykjavíkur og hefur rekið þar meðferðarheimili fyrir áfengis og vímuefnaneytendur allar götur síðan.
„Elsti hluti húsakosts Hlaðgerðarkots er frá árinu 1955. Húsnæðið sem byggt var af vanefnum er nú í slæmu ástandi og á undanþágu yfirvalda. Löngu tímabært er að ráðast í nauðsynlegar endurbætur og nýbyggingu til að hægt sé að uppfylla kröfur yfirvalda. Ef engin hjálp fæst er fyrirséð að starfsemin muni leggjast af. Áætlaður kostnaður við fyrsta áfanga nýrrar byggingar er um 100 milljónir króna,“ segir í tilkynningu Samhjálpar.
Samhjálp leitar til almennings eftir hjálp og mun standa fyrir landssöfnun í opinni dagskrá á Stöð 2 þann 21. nóvember. Samkvæmt tilkynningunni verður dagskrá söfnunarinnar mjög vegleg og munu fjölmargir listamenn og velunnarar leggja málefninu lið með því að gefa vinnu sína.
Í tilkynningu Samhjálpar segir að yfir helmingur skjólstæðinga Hlaðgerðarkots sé á aldursbilinu 18 til 39 ára. Á síðustu árum hafi ungt fólk leitað í æ ríkari mæli eftir meðferð í Hlaðgerðarkoti, sem anni ekki eftirspurn eins og áður segir. Auk Hlaðgerðarkots eru starfrækt nokkur úrræði á vegum samtakanna, en um 80 manns er tryggð næturgisting hjá Samhjálp á hverri nóttu allan ársins hring.
„Samhjálp rekur eftirmeðferðar- og áfangaheimilin Brú og Spor. Stuðningsheimilið að Miklubraut 18 er rekið samkvæmt samningi við Reykjavíkurborg. Ekki má gleyma Kaffistofu Samhjálpar í Borgartúni 1. Þar er boðið upp á morgunkaffi, meðlæti og heita máltíð í hádeginu, alla daga ársins, helgar jafnt sem helgidaga. Matargestir eru að jafnaði 180 á dag allt árið um kring. Á síðasta ári gaf Samhjálp yfir 65 þúsund máltíðir á Kaffistofunni,“ segir í tilkynningunni.