Hrunið úr Lágey Dyrhólaeyjar ofan í Kirkjufjöru er stærra en hrunið sem varð árið 2012, en þá hrundu um 16-18 þúsund rúmmetrar úr bjarginu. Ekki eru komnar nákvæmar tölur um stærð hrunsins, en sérfræðingar á ofanflóðasviði Veðurstofunnar vinna nú í að skoða gögn um málið. Enn er yfirvofandi hrun úr bjarginu, en sprungur fara bæði til vesturs og austurs upp frá skriðunni. Þetta segir Jón Kristinn Helgason, sérfræðingur hjá Veðurstofunni.
Í síðustu viku var greint frá að umferð um fjöruna væri bönnuð, en gífurlegt hrun varð þangað úr bjarginu. „Þetta var heljarinnar klettabrún sem fór niður,“ segir Jón í samtali við mbl.is. „Það er áfram yfirvofandi hrun, bara spurning hvenær það fer niður,“ bætir hann við, en á myndum sem Umhverfisstofnun sendi á fjölmiðla má sjá hvernig sprungur ganga upp úr því sem hrundi niður og ná upp á brún.
Það er undangröftur brims sem veldur þessum hamförum, en Jón segir að enn sé þó ekki ljóst hvort að hrunið hafi gerst í einu vetfangi eða í nokkrum minni atburðum. Hann segir þó líklegra að svona stórt hrun gerist allt í einu.
Frétt mbl.is: Loka aðgengi að Kirkjufjöru