Vilhjálmur vill afsökunarbeiðni

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson.
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson. mbl.is/Golli

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson skorar á Jóhönnu Sigurjónsdóttur, lögmann tveggja ungra kvenna sem kært hafa tvo menn fyrir kynferðisbrot, að biðja hann þegar í stað afsökunar. Eins og RÚV greindi frá fyrr í dag hyggst Jóhanna kæra Vilhjálm til lögreglu fyrir að leka trúnaðarupplýsingum.

„Ég skora á Jóhönnu að biðjast þegar í stað afsökunar á þessu frumhlaupi sínu og mun ég þá fyrirgefa henni með bros á vör. Við gerum jú öll mistök í lífinu,“ segir í svari Vilhjálms til Jóhönnu sem hann sendi mbl.is í gegnum tölvupóst.

Í svarinu segir að það sjái hver heilvita maður að hann geti ekki verið heimildarmaður Fréttablaðsins. Segist hann ekki hafa haft vitneskju um málið fyrr en hann var ráðinn til að gæta hagsmuna annars kærðu á mánudag kl. 17. Þá hafi Fréttablaðið þegar verið búið að birta forsíðufrétt sína um íbúðina. Í öðru lagi sjáist það á fréttinni sem birtist í  morgun að blaðamaður Fréttablaðsins hafi hringt í hann í gær til að bera hana undir hann og þar hafi hann vísað því á bug að hún sé sannleikanum samkvæmt.

„Í þriðja lagi er ég búinn að vera í öllum fjölmiðlum að bera fréttflutning Fréttablaðsins til baka og segja að hann sé rangur. Hvers vegna í ósköpum ætti ég líka að fóðra Fréttablaðið á upplýsingum/gögnum sem koma umbj. mínum illa. Þessi málatilbúnaður Jóhönnu Sigurjónsdóttur dæmir sig því sjálfur auk þess sem þetta er órökstuddar dylgjur sem eiga sér enga stoð í þeim lagabálkum sem hún vísar til, enda getur hún það ekki því það hafa engin lög verið brotin“

Snýst ekki um heimildarmanninn

Í samtali við mbl.is áréttaði Jóhanna hinsvegar að fyrirhuguð kæra snúist hreint ekki um heimildarmann Fréttablaðsins heldur um ummæli sem Vilhjálmur hefur látið falla í fjölmiðlum undir nafni, sem lögmaður annars ákærðu, eftir að fyrstu fréttir af málinu tóku að berast.

Mbl.is hafði samband við Vilhjálm vegna þessa misskilnings en hann kveðst standa við fyrra svar sitt.

„Og við hvaða ákvæði almennra hegningarlaga, laga um meðferð sakamála, lögmannalaga, eða siðaregla lögmanna varðar þetta? Ég hef ekki hugmynd um það? Svo ég get ekkert svarað fyrir það. Ég get bara svarað fyrir það sem hún segir. Hún talar um Fréttablaðið og þangað til þá stendur þetta svar.“

Segist Vilhjálmur telja það lágmarkskröfu til lögmanns sem ásakar einhvern um refsiverða háttsemi að viðkomandi heimfæri hana á refsiákvæði og geri grein fyrir hvaða lagaákvæði hafi verið brotin.

„Að endingu, af því að Álafossúlpunni er svo annt um hugtakið þöggun, ég held að þetta sé ein versta tegund af þöggun sem ég hef orðið vitni að. Að það megi ekki halda uppi vörnum fyrir sakaðan mann sem er borinn röngum sökum í fjölmiðlum.“

Meint kynferðisbrot eru sögð hafa átt sér stað í Hlíðunum.
Meint kynferðisbrot eru sögð hafa átt sér stað í Hlíðunum. mbl.is/Júlíus
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert