Handtaka fólksins nauðsynleg

Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður var meðal þeirra sem neituðu að yfirgefa …
Ómar Ragnarsson, fjölmiðlamaður var meðal þeirra sem neituðu að yfirgefa framkvæmdasvæðið. mbl.is

Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði í dag bótakröfu Ómars Ragnarssonar fjölmiðlamanns og átta annarra vegna handtöku þeirra í Gálgahrauni við Garðabæ fyrir rúmum tveimur árum. Fólkið neitaði að verða við tilmælum lögreglu um að yfirgefa svæði í hrauninu þar sem fyrirhugaðar voru vegaframkvæmdir.

Fram kemur í dómum héraðsdóms að handtaka fólksins hafi verið nauðsynleg til að tryggja framgang lögmætra framkvæmda. Ekki hafi verið gengið lengra en nauðsynlegt hafi verið og fólkið hafi sjálft stuðlað að því að það var handtekið. Fyrir vikið eigi það ekki rétt á miskabótum samkvæmt lögum. Þá hafi ekki verið unnin ólögmæt meingerð gegn persónu, friði, æru eða persónu fólksins og ósannað væri að því hefði verið valdið varanlegum miska.

Einni konu voru dæmdar 225 þúsund krónur í miskabætur með dráttarvöxtum þar sem hún hafi verið handtekin þrátt fyrir að hafa ætlað að hlýða fyrirmælum lögreglu. Á leið sinni út af framkvæmdasvæðinu tók konan eftir því að skór hennar var óreimdur og hugðist lagfæra það en var þá tekin höndum. Konan hafi því verið handtekin án heimildar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert