Skattar skýra ekki brottflutning

Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.
Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Það hafa ekki orðið neinar þær breytingar á skattaumhverfi á Íslandi að þær geti skýrt brottflutning íslenskra ríkisborgara. Þetta segir Skúli Eggert Þórðarson ríkisskattstjóri.

Fram kom í Morgunblaðinu fyrr í vikunni að 1.130 fleiri íslenskir ríkisborgarar fluttu frá landinu en til þess á fyrstu 9 mánuðum en til þess. Til samanburðar fluttu 1.860 fleiri erlendir ríkisborgarar til landsins en frá því á tímabilinu.

Vegna þessarar fréttar hefur sú kenning verið sett fram í vefmiðlum að skýringin á brottflutningi íslenskra ríkisborgara kunni að eiga sér skattalegar skýringar.

Þúsundir sagðar hafa flutt lögheimilið

Til dæmis skrifaði Jón Þorbjörnsson á Facebook-síðu sína að Ríkisskattstjóri hafi breytt um aðferðarfræði og fyrir vikið hafi nokkur þúsund manns staðið í „svolitlu baxi við skattayfirvöld“.

„Allir Íslendingar sem vinna erlendis og greiða því skatta í því landi sem þeir starfa fengu aukaálagningu frá skattinum í ár og þurfa að sanna að þeir búi erlendis. Þess vegna þurftu þúsundir að flytja lögheimilið,“ skrifaði Jón, að því er fram kemur á Eyjunni.

Má af þessu skilja að hvati hafi skapast til að flytja lögheimili og að því hafi margir flutt úr landi.

Engin sérstök aukaálagning

Skúli Eggert segir þetta ekki rétt.

„Ég kannast ekki við þessa lýsingu um eitthvert átak gagnvart fjölda fólks. Auðvitað þarf að gera einhverjar leiðréttingar á framtölum og í sumum tilfellum enduráleggja á grundvelli nýrra upplýsinga en það er ekkert umfram það sem er á hverju ári. Engin sérstök aukaálagning hefur verið vegna einstaklinga sem búa erlendis, umfram nokkurra þar sem upplýst hefur verið um að tekjur séu vantaldar. Það er lögskylt að þeir sem eru hluta úr ári erlendis fá álagningu með ákveðnum hætti. Það hefur engum vinnureglum verið breytt hjá ríkisskattstjóra.

Álagning opinberra gjalda fer samkvæmt lögum og lagabreytingar sem orðið hafa á síðustu árum hafa verið lækkanir en ekki hækkanir  … Þeir sem þekkja til á hinum Norðurlöndunum vita að það er ekki meiri skattbyrði hér en annars staðar. Þetta fólk er ekki að flytja lögheimili vegna þess að ríkisskattstjóri hefur breytt vinnubrögðum og það hafa ekki orðið skattahækkanir eða neitt slíkt. Þannig að ég dreg þessa skýringu mjög í efa.

Því hefur stundum verið haldið fram að menn flytji úr landi vegna skattanna en reyndar sjaldnast á Íslandi. Því var til dæmis haldið fram að menn hefðu flutt úr landi vegna auðlegðarskattsins á sínum tíma. Þá spyr ég á móti: Nú er hann ekki lengur. Eru menn þá að flytja til landsins?“ spyr Skúli Eggert.

Útlendingum er að fjölga

Skúli Eggert bendir á að með alþjóðavæðingunni færist það í vöxt að fólk fari milli landa vegna náms eða starfa.

„Hitt er annað mál að svonefndum handreiknuðum aðilum fjölgar alltaf. Það hefur orðið mikil breyting á fjölda útlendinga sem koma til landsins. Þeim hefur fjölgað mikið á síðustu árum. Það er líka vegna fólks sem er að flytja frá landinu.

Við þær aðstæður er ekki unnt að vélreikna álagninguna heldur eiga við reglur um hlutfallslega dvöl hérlendis. Það að kenna skattinum um þennan brottflutning er ekki rétt. Sú ályktun að skattyfirvöld séu að vinna eftir einhverju öðru en lögum er ekki rétt,“ segir Skúli Eggert.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert