Það var ófremdarástand í höfuðstöðvum Landsnets í dag þar sem starfsmenn tókust á við afleiðingar af stóru eldgosi. Um var að ræða stærstu æfingu af þessu tagi sem ráðist hefur verið í en auk Landsnets tóku raforkuframleiðslufyrirtækin, stórnotendur rafmagns, almannavarnir og veðurstofan þátt.
Eldgosið í æfingunni varð í Bárðarbungu en aðeins sunnar en það sem varð í Holuhrauni í fyrra. Flóð fylgdu í kjölfarið sem gerðu Búrfellsvirkjun er óstarfhæfa og Sultartangavirkjun að einhverju leiti líka. Afleiðingin varð sú að skerðingar voru á rafmagni á Suðurlandi og Vestmannaeyjar voru keyrðar á varaafli. Almenningur á Suðvesturhorninu var þó með rafmagn en skerða þurfti rafmagn til stórnotenda.
Svona var staðan í morgun en gera má ráð fyrir að hún hafi þróast til hins verra eftir því sem leið á daginn.
mbl.is var í höfuðstöðvum Landsnets í morgun en tæplega 200 manns tóku þátt í æfingunni sem hefur verið í undirbúningi í eitt ár.