Djúp lægð færist nú til norðausturs fyrir austan landið og eru skil hennar yfir norðaustanverðu landinu samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. Þessu fylgir allhvass eða hvass vindur og talsverð rigning eða slydda norðaustantil, en snjókoma til fjalla. Gert er ráð fyrir að það dragi úr vindi og ofankomu í kvöld og nótt.
Veðurspáin næsta sólarhringinn gerir annars ráð fyrir norðanátt 10-18 metrum á sekúndu með rigningu eða slyddu austantil, hvassast austast, en snjókoma til fjalla. Mun hægari átt verður vestantil og yfirleitt bjartviðri, en stöku él við norðvesturströndina. Það dregur síðan úr vindi í kvöld og nótt sem fyrr segir. Norðlæg átt, 5-13 m/s, verður síðan í fyrramálið og él, en heldur hægari seinnipartinn. Hiti yfirleitt 0 til 5 stig við ströndina, en annars vægt frost.
Fylgjast má með lægðinni á myndrænan hátt hér.