Símaskráin verður gefin út í síðasta sinn á árinu 2016. Símaskráin hefur komið út í 110 ár en fyrsta Símaskráin kom út þann 15. ágúst árið 1905.
Upplýsingar um símanúmer einstaklinga og fyrirtækja verða áfram aðgengilegar á rafrænan hátt á Já.is, í Já appinu og í símanúmerinu 1818, samkvæmt fréttatilkynningu.
„Af þessu tilefni mun koma út hátíðarútgáfa af Símaskránni á næsta ári og hefur Stefán Pálsson sagnfræðingur fengið það verkefni að skrá sögu hennar sem telur þá 111 ár. Forsíða Símaskrárinnar hefur haft menningarlegt gildi og endurspeglað tíðarandann í samfélaginu hverju sinni. Hönnun á forsíðu þessarar síðustu Símaskrár verður í höndum Guðmundar Odds Magnússonar (Godds) prófessors við Hönnunar- og arkitektúrdeild Listaháskóla Íslands,“ segir í tilkynningu.
Fyrsta Símaskráin var gefin út af Talsímafélaginu árið 1905 og sátu meðal annars Thor Jensen, athafnamaður, Klemenz Jónsson, landritari, og Knud Zimsen, bæjarverkfræðingur og síðar borgarstjóri í Reykjavík, í stjórn félagins. Skráin innihélt 165 símanúmer og var alls 13 blaðsíður.