Sá mann koma hlaupandi með byssu

Frá vettvangi í París.
Frá vettvangi í París. AFP

„Það eru lögreglumenn úti um allt hérna. Fyrst lokuðu þeir götunni en núna eru þeir búnir að loka öllum götum og það eru sírenur úti um allt. Gatan er tóm hérna fyrir framan,“ segir Sigurður Árni Sigurðsson myndlistarmaður í samtali við mbl.is vegna skot- og sprengjuárásanna í París, höfuðborg Frakklands, í kvöld, en hann er staddur í borginni.

Sigurður Árni var staddur á veitingahúsi ásamt vinafólki við sama horn og barinn er þar sem ein árásin var gerð. Hann segist hafa heyrt sprengingar og fyrst haldið að um flugelda væri að ræða. Einkennilegt sé að árás hafi verið gerð á þessum stað. Hverfið sé rólegt og fjölskylduvænt íbúðarhverfi og engar byggingar sem hægt væri að ímynda sér að gætu verið skotmörk slíkra árása.

„Síðan sé ég út undan mér mann koma hlaupandi með byssu. Ég sá síðan í fréttunum að hann hefði verið vopnaður Kalishnikov-riffli. Mér skilst núna að þeir hafi keyrt framhjá barnum en ég sá það ekki. En þarna eru allir búnir að átta sig á hvað er í gangi og við skriðum öll inn á veitingahúsið. Veitingahúsið var fullt af fólki með börn,“ segir Sigurður Árni.

Þetta var að hans sögn bara venjulegt kvöld og fólk úti að borða. Það er gott veður í París og því töluvert margt fólk úti við. 

„Börnunum var komið fyrir á bak við afgreiðsluborðið á veitingastaðnum og síðan vorum við smám saman flutt út um bakdyrnar á veitingastaðnum og inn í næstu götu,“ segir Sigurður Árni. Þaðan komst hann og vinafólk hans til síns heima við götuna þar sem árásin var gerð.

Sigurður Árni Sigurðsson myndlistamaður.
Sigurður Árni Sigurðsson myndlistamaður. mbl.is/Friðrik Tryggvason
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert