Borgi ekki milljón fyrir geymslu

Að loknu námi þurfa nemendur að flytja út af stúdentagörðunum.
Að loknu námi þurfa nemendur að flytja út af stúdentagörðunum. Ómar Óskarsson

Ungt fólk sem er að huga að því að kaupa sína fyrstu fasteign vill ekki endilega reiða fram eina milljón fyrir að hafa geymslu á heimili sínu. Það vill heldur eiga aðeins auðveldara með að komast úr foreldrahúsum eða af leigumarkaðinum og eignast þak yfir höfuðið.

Þetta segir Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs Háskóla Íslands, sem í dag flytur erindið Framtíðarsýn stúdenta í húsnæðismálum á málstofu Reykjavíkurborgar sem ber yfirskriftina Hvað er framundan? – Viðfangsefni og lausnir. Þar mun hann viðra hugmyndir og sjónarmið Stúdentaráðs.

Hafa búið á fimm stöðum á sjö árum

„Samkvæmt okkar gögnum býr næstum helmingur stúdenta í foreldrahúsum eða á stúdentagörðum. Að loknu námi þurfum við líklega að fara að huga að því að flytja út af báðum stöðum. Þú þarf alltaf að flytja út af stúdentagörðunum og líklega eru foreldrarnir að verða þreyttir á því að hafa afkvæmin heima,“ segir Aron í samtali við mbl.is.

Aron segir að gerð hafi verið könnun meðal nemanda skólans þar sem meðal annars var spurt að því hvort þeir sjái fyrir sér að kaupa íbúð að loknu námi. Könnunin leiddi í ljós að 74% nemenda vilja kaupa íbúð en Aron segir áhyggjuefni að 31% þeirra sjái ekki fyrir sér að kaupa íbúð fyrr en fimm árum eða síðar eftir útskrift.

Hann bendir á að leigumarkaðurinn hér á landi sé ekki mjög stöðugur og allir þekki dæmi um fólk sem leigir og hefur þurft að flakka á milli hverfa, búi aðeins í stuttan tíma á hverjum stað.

„Það er ekkert óeðlilegt að heyra um fólk sem hefur verið á leigumarkaði í sjö til átta ár sem hefur búið á fimm til sex mismunandi stöðum. Þá er mjög eðlillegt að fólk líti til þess að vilja kaupa, það er mikilvægt til þess að festa sig einhversstaðar, festa niður rætur að námi loknu,“ segir Aron.

Greiði ekki skatt í eitt ár

Stúdentaráð hefur rætt hvernig hægt væri að auðvelda ungu fólki að kaupa fyrstu íbúð. „Eitt af því gæti verið að laga byggingarregluverkið, þetta eru mjög strangar kröfur og það þarf að opna á möguleikana fyrir ungt fólk. Það þarf kannski ekki að eyða þessari auka milljón í geymslu, fólk hefur kannski hekki efni á því. Bara litlir hlutir eins og að hætta með geymslu eða bílskýli, það vantar þetta skref, það er gat á markaðinum fyrir ungt fólk,“ segir Aron.

Þá hefur einnig verið nefnd sú hugmynd að afnema stimpilgjald við kaup á fyrstu íbúð og bjóða upp á eitt skattlaust ár fyrir ungt fólk.

„Þannig gæti ungt fólk með snöggum hætti byggt upp smá eigið fjár til að hafa efni á að setja í íbúð. Ef fólk prófa að upplifa skattlaust ár er það einnig meðvitaðra um skattgreiðslur sínar. Framtíðarleiðtogar þessa lands væru búnir að greiða ekki skatt í eit ár og yrðu meðvitaðri um hvað þeir hafa í höndunum,“ segir Aron.

„Þetta eru bara vangaveltur, það eru margar mismunandi leiðir og við höfum ekki tekið beina afstöðu til þess hvaða leið ætti að fara. Það þarf að skoða þetta, við erum bara að benda á fjölbreytileikann í þeim leiðum sem hægt er að fara til að koma til móts við ungt fólk sem vantar íbúð.“

Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs HÍ.
Aron Ólafsson, formaður Stúdentaráðs HÍ.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert