„Þeir sögðu ekki beint út að þeir ætluðu að drepa mig en þegar þeir fóru að dreifa nafninu mínu þá fór svolítið um mig,“ segir Gunnar Hrafn Jónsson fréttamaður á Ríkisútvarpinu í samtali við mbl.is en hann upplýsti á samfélagsvefnum Facebook í kvöld að hann hefði verið settur á eins konar dauðalista hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams fyrir um ári síðan þegar um 20 liðsmenn samtakanna hefðu dreift nafni hans á netinu og hvatt til árása á hann.
Gunnar segir að forsaga málsins sé sú að hann hafi verið að rannsaka Ríki íslams talsvert mikið á þessum tíma í kjölfar þess að myndbönd voru birt á netinu tengd samtökunum með myndum úr íslenskri náttúru. Hann hafi verið búinn að finna nokkuð marga liðsmenn Ríkis íslams á samfélagsvefnum Twitter sem hann hafi fylgst með. Þar hafi til að mynda verið hægt að fá upplýsingar um hreyfingar þeirra meðal annars í Írak.
„Síðan spurði ég óvarfærinna spurninga og þá var lokað á mig. Í kjölfarið fóru þessir náungar að auglýsa nafnið mitt á Facebook eitt kvöldið. Sögðu að ég væri njósnari fyrir NATO og byggi á Íslandi og eitthvað fleira,“ segir Gunnar. Aðspurður segist hann ekki hafa orðið var við neitt síðan nema frá einstaka einstaklingum á Twitter. „Þeir hafa spurt hvers vegna ég sé svona forvitinn og fyrir hvern ég sé að spyrja og eitthvað slíkt.“
„Þeir bitu það í sig að ég væri njósnari og það hjálpaði ekkert þegar ég benti þeim á að ég væri fréttamaður, segir Gunnar. „Ég var búinn að ná að tala við tvo, þrjá í einkaskilaboðum. Einn var í Tyrklandi og bauð mér að koma yfir. Vildi fá mig á staðinn sem fréttamann og ætlaði að ferja mig yfir landamærin til Sýrlands. En eftir að þetta kom upp þá treysti ég mér ekki í það. Þetta er nú ekkert stórmál, það hafa örugglega margir lent í þessu. En ég var kominn svolítið nálægt þeim þannig að þeim hefur líklega þótt það óþægilegt.“