Keppti í átta greinum á fjórum dögum

Kristín æfir sund þrisvar í viku.
Kristín æfir sund þrisvar í viku. Af Facebook

Glæsilegur árangur Kristínar Þor­steins­dótt­ur frá Sund­fé­lag­inu Ívari á Ísaf­irði á Evr­ópu­meist­ara­móti DSISO á Ítal­íu, hefur vakið athygli en Kristín setti tvö heims­met og tíu Evr­ópu­met, vann til fimm gull­verðlauna og vann ein silf­ur- og bronsverðlaun. Krist­ín setti heims­met­in sín í 25 metra flugsundi og 100 metra skriðsundi.

Móðir Kristínar, Sigríður Hreinsdóttir, segir hana hafa æft sig fyrir Evrópumeistaramót DSISO í heilt ár en DSISO eru alþjóðleg sund­sam­tök ein­stak­linga með Downs-heil­kenni.

Bróðirinn hljóp í skarðið

„Þetta er heljarinnar undirbúningur, bæði æfingalega séð og andlega. Svo er mjög mikil skriffinnska í kringum þetta. Til þess að vera með þurfti Kristín að vera félagsmaður í samtökunum og við sóttum um það í vor,“ segir Sigríður en mótið stóð yfir í viku.

Þjálfari Kristínar er Svala Sif Sigurgeirsdóttir og höfðu þær unnið að þessu móti í heilt ár. Svala komst þó ekki með til Ítalíu þar sem hún er barnshafandi og á von á sér á allra næstu dögum að sögn Sigríðar. „En við vorum svo heppnar að Bragi, bróðir Kristínar, sem er gamall sundmaður og þjálfari, hljóp í skarðið.“

Aðspurð hvort að Kristín hefði ekki verið ánægð með að fá bróður sinn með svarar Sigríður því játandi. „Hann þekkir hana náttúrulega mjög vel og við vorum mjög ánægðar með að hann skyldi geta skellt sér í brúnna.“

Komst í úrslit í öllum sínum greinum

Eins og fyrr segir er árangur Kristínar magnaður. Keppti hún í átta greinum á viku og fór í úrslit á þeim öllum. „Það gerðist t.d. fjórum sinnum að hún sló sama metið tvisvar,“ útskýrir Sigríður. „Þá sló hún Evrópumet fyrir hádegi í undanúrslitum og betrumbætti sig eftir hádegi í úrslitum.“

Sigríður segir það hafa verið mjög lærdómsríkt en á sama tíma skemmtilegt að taka þátt í þessu ákveðna móti. „Þetta er alveg nýr heimur fyrir okkur, að fara erlendis og hitta svona marga krakka með Downs,“ segir hún en bætir við að þetta hafi þó ekki verið í fyrsta skipti sem Kristín keppti erlendis í sundi. „Hún hefur farið bæði til Malmö og Berlínar en þá var hún að keppa upp fyrir sig, þetta var í fyrsta skipti sem hún keppti á jafningagrundvelli.“

Keppt fyrir og eftir hádegi

Hún segir Kristínu mjög ánægða eftir mótið en þreytta. „Þetta var mjög strembið, hún keppti í átta greinum sem er rosalegt á svona móti, og fór í úrslit á þeim öllum. Hún var að keppa fyrir hádegi og eftir hádegi alla dagana. Það var ekki smuga að labba niður í bæ og kíkja í kringum okkur, það var bara keppt, hvíld og næring í heila viku.“

Nú stefnir Kristín að því að keppa á Malmö Open sundmótinu í Svíþjóð í febrúar og svo á heimsmeistaramóti DSISO eftir ár sem haldið verður í Flórens.

Frábær árangur miðað við aðstöðuna

Það er augljóslega mikill kraftur í þessari 23 ára gömlu sundkonu. Að sögn Sigríðar byrjaði hún að synda átta ára gömul, þá aðeins til heilsubótar. „Þetta er alveg frábær íþrótt fyrir fólk með Downs. Þau eru oft með með lélega vöðvatónun og lélegt jafnvægi. Sundið er ofboðslega góð íþrótt fyrir svoleiðis og þess vegna fór hún í sundið.“

Kristín vinnur fjóra morgna í viku á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða á endurhæfingardeild. Sigríður segir það æðislegt tækifæri fyrir Kristínu þar sem hún starfar með yndislegu fólki. Hún segir sundið ekki taka mikinn tíma af Kristínu. „Þetta er alveg frábær árangur miðað við það sem við getum boðið henni á Ísafirði. Laugin þar er aðeins 16 metrar að lengd,“ útskýrir Sigríður en Kristín æfir þrisvar í viku í tæpan klukkutíma í senn. „Þetta er alveg ótrúlegur árangur miðað við það,“ segir Sigríður.

Verðlaunuð af öðrum þjálfurum og liðum

„Við fórum út á þetta mót með væntingar um að fella einhver Evrópumet miðað við hvað hún átti tíma í en þessi árangur var framar öllum vonum,“ bætir hún við en þær verða í Reykjavík fram yfir helgina. „Kristín á systur hérna í Reykjavík og henni finnst gaman að sjá hana. Hún er líka mjög hrifin af því að ferðast og hefur gaman að tilbreytingunni, það er nú ekki mikil tilbreyting fyrir vestan.“

Að sögn Sigríðar er Kristín þar að auki mikil hannyrðakona, prjónar, saumar og notar saumavél. Hún segir fjölmiðla og aðra hafa sýnt Kristínu mjög mikinn áhuga vegna þessa mikla árangurs. „Það er búið að vera mikið stuð, sem við kunnum varla á,“ segir Sigríður og hlær.

Árangur Kristínar vakti líka athygli á mótinu sjálfu. Hún var verðlaunuð sér­stak­lega í lok móts fyr­ir besta frammistöðu á mót­inu, í kjöri þjálf­ara, far­ar­stjóra og annarra liða. „Það kom skemmtilega á óvart,“ segir Sigríður.

Hægt er að fylgjast með Kristínu á Facebook síðu hennar.

Fyrri fréttir mbl.is:

Kristín var best allra á EM

Setti tvö heimsmet og tíu Evrópumet

Kristín Þorsteinsdóttir.
Kristín Þorsteinsdóttir. Ljósmynd/Facebook
Kristín með einn af tveimur heimsmeistarapeningum.
Kristín með einn af tveimur heimsmeistarapeningum. Af Facebook
Af Facebook
Kristín Þorsteinsdóttir með viðurkenningu sína fyrir besta frammistöðu á EM.
Kristín Þorsteinsdóttir með viðurkenningu sína fyrir besta frammistöðu á EM. Ljósmynd/Facebook
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert